Hraði landriss er meiri nú en fyrir gosið 29. maí og á svipuðum hraða og það var í byrjun árs. Líkur eru á öðru kvikuhlaupi og/eða eldgosi á næstu vikum og mánuðum.
Þetta kemur fram í uppfærðu hættumati Veðurstofu Íslands.
Fram kemur að niðurstöður líkanreikninga gefi til kynna að miðað við núverandi innflæði verði kvikuhólfið undir Svartsengi komið í svipaða stöðu og fyrir eldgosið 29. maí eftir þrjár til sex vikur.
„Frá og með deginum í dag er því líklegt að kvikuhlaup eða eldgos fari af stað á næstu vikum og mánuðum,“ segir í tilkynningunni.
Líkan byggt á aflögunargögnum sýnir að innflæði kviku inn í kvikuhólfið undir Svartsengi er nú 4-6 rúmmetrar á sekúndu. Í upphafi kvikuinnskotsins og síðan eldgossins 29. maí er metið að um 13-19 milljón rúmmetrar hafi farið úr kvikuhólfinu.
Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat sem gildir að öllu óbreyttu til 9. júlí.
Hættur tengdar hraunrennsli og gasmengun hefur verið lækkað en heildar hættumatið er óbreytt, fyrir utan tvö svæði.