Albert mætti ekki í þingfestingu

Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson. Ljósmynd/Alex Nicodim

Mál Alberts Guðmundssonar var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Albert, sem er landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot.

Albert var sjálfur ekki viðstaddur þingfestinguna í morgun en fyrir hans hönd mætti lögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Þingfestingin var lokuð og neitaði lögmaður Alberts að tjá sig þegar blaðamaður reyndi að ná af honum tali. Ekki er því hægt að staðfesta hvort Albert hafi lýst yfir sakleysi sínu í þingfestingunni.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Alberts, sést hér mæta í þingfestinguna.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Alberts, sést hér mæta í þingfestinguna. mbl.is/Eyþór

Fellt niður í febrúar

Albert var fyrst kærður í ágúst 2023 en málið var fellt niður af héraðssaksóknara í febrúar í ár sökum þess að málið þótti ekki líklegt til sakfellingar.

Sú ákvörðun var aftur á móti kærð til ríkissaksóknara sem felldi ákvörðunina úr gildi og lagði fyrir embættið að höfða sakamál á hendur Alberti. Gefur það til kynna að ríkissaksóknari telji líklegt að Albert verði sakfelldur.

Eva Bryndís Helgadóttir, réttargæslumaður konunnar sem kærði Albert til lögreglu, sagði í samtali við mbl.is í maí að henni þætti líklegt að Albert yrði sakfelldur. Konan sakar Albert um nauðgun en lágmarksrefsing þeirra sem gerast sekir um nauðgun er eitt ár í fangelsi en getur varðað allt að 16 árum.

Lék umspilsleiki í mars

Albert neitaði ásökununum og sagðist saklaus í yfirlýsingu er hann var fyrst kærður en hefur að öðru leyti ekki tjáð sig um málið. Hann á að baki 37 A-landsleiki en spilaði ekki leik með landsliðinu á meðan hann var undir rannsókn lögreglu, samkvæmt reglum KSÍ.

Spilaði hann þó tvo umspilsleiki sem fóru fram í mars en þá var ákvörðun héraðssaksóknara, um að fella málið niður, enn í gildi.

Ljóst þykir nú að Albert mun ekki spila með íslenska landsliðinu þar til dæmt hefur verið í málinu.

Arnþrúður Þórarinsdóttir héraðssaksóknari í þingfestingunni í dag.
Arnþrúður Þórarinsdóttir héraðssaksóknari í þingfestingunni í dag. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert