Auglýsingarnar áhyggjuefni

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. …
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. Myndin er samsett. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veðbankar og auglýsingar þeirra hafa verið í mikilli umræðu síðustu mánuði, nú nýlega fyrir að herja meira á börn undir lögaldri. Mennta- og barnamálaráðherra segir samfélagið þurfa að sjá sóma sinn í því að standa vörð um hag ungmenna í þessum efnum. 

Vísir greindi frá því nýlega að veðbankinn Coolbet hefði styrkt útilegu á vegum Nemendafélags Verslunarskóla Íslands. 

Spurður hvort það sé ástæða til þess að stjórnvöld grípi inn í hvað varðar starfsemi og auglýsingar veðbanka hér á landi segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, samfélagið þurfa að horfa í eigin barm og löggjafarvaldið að grípa inn í, sé þörf á því. 

„Lagaramminn heyrir ekki beint undir mig en að sjálfsögðu eiga menn ekki að vera að beina  að ungu fólki einhverju sem er ólöglegt, hvort sem það eru veðmálabankar, áfengi eða annað slíkt. Ef menn geta ekki séð sóma sinn í því að nálgast ungt fólk með eðlilegum hætti þá að sjálfsögðu á löggjafinn að skoða hvernig hægt er að grípa inn í það,“ segir Ásmundur.

Áhyggjuefni fyrir samfélagið ef löggjafann þarf alltaf 

Þegar staða ungmenna í þessum efnum er borin upp segir Ásmundur samfélagið almennt hafa staðið vörð um ungt fólk en nú sé eitthvað að bresta. 

„Það sama á við um áfengi, veðmál og annað, íslenskt samfélag hefur í gegnum tíðina staðið vörð um ungt fólk með þessum hætti og það hefur verið samfélagsleg sátt um það. Maður sér allt of mikið að þetta er að bresta og ef það er ekki hægt sómasamlega eða með siðferðislegum hætti að nálgast ungt fólk, og það þurfi alltaf löggjafann til þess að grípa inn í til þess að stöðva slíkt, þá er það áhyggjuefni fyrir samfélagið. En ef það er þörfin þá er ég einn af þeim sem væri stuðningsmaður þess og fylgjandi því.“

Er þetta töpuð barátta með tilliti til þeirra auglýsinga sem herja á ungt fólk?

„Nei, alls ekki, ég held að það sé bara gríðarlega mikilvægt að allir horfi í eigin barm og séu ekki að beina þessu að ungu fólki. Nú ef að það dugar ekki til þá þurfum við að grípa inn með löggjafann í það. Sama hvort um er að ræða veðmálasíður, áfengi eða annað slíkt, vegna þess að við erum nýlega búin að sjá áfengisauglýsingu sérstaklega beint að ungu fólki, og það er einnig áhyggjuefni. Vegna þess að við höfum staðið framarlega, íslenskt samfélag, þegar það kemur að þessum málum og við eigum að gera það áfram,“ segir Ásmundur. 

Í skoðun hjá dómsmálaráðuneytinu

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir málefni er varða veðbanka vera í skoðun hjá ráðuneytinu. Hún sé þó ekki tilbúin til þess að tjá sig frekar um ákvarðanir í þeim efnum að svo stöddu. 

„Það er alveg tilefni til þess að skoða þetta og við gerum það í ráðuneytinu en við höfum ekki tekið neina ákvörðun um það en þessi starfsemi verður að vera lögleg í landinu eins og önnur starfsemi.“

Er of seint að grípa inn í, þurfum við að sætta okkur við þetta og leyfa þetta?

„Eins og ég segi þá verður þessi starfsemi að lúta íslenskum lögum og við höfum verið að skoða þetta í ráðuneytinu og ég treysti mér ekki til að tjá mig eitthvað frekar um það vegna þess að við höfum ekki komist að neinni niðurstöðu um hvað skuli gera,“ segir Guðrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert