Endurgreiddu eftir að hafa vísað fimm ára barni frá

Barninu var vísað frá leiðsögninni af leiðsögumanni vegna aldurstakmarka. Mynd …
Barninu var vísað frá leiðsögninni af leiðsögumanni vegna aldurstakmarka. Mynd úr safni. mbl.is/Hákon

Ferðaþjónustufyrirtæki endurgreiddi manni fyrir aðgangsmiða að leiðsögn sem hann borgaði fyrir eftir að fimm ára barni hans var meinaður aðgangur að leiðsöguferðinni. Fyrirtækið endurgreiddi honum fullt verð eftir að málið var komið til meðferðar úrskurðarnefndar.

Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar um vöru- og þjónustukaup.

Málsatvik eru þau að maðurinn hafði átt í samskiptum við fyrirtækið áður en hann bókaði þjónustuna og spurt hvort börn mættu taka þátt. Fyrirtækið upplýsti hann um að aldurstakmark væri átta ára aldur en að leiðsögumenn könnuðu ekki sérstaklega aldur og væri það á ábyrgð foreldra að meta hvort barn mætti taka þátt.

Greiddi samtals 120 þúsund krónur

Í kjölfarið pantaði maðurinn svo ferðina fyrir fimm manns og var þar á meðal fimm ára drengurinn. Greiddi hann fyrir leiðsögnina um 120 þúsund krónur. Þegar á hólminn var komið meinaði leiðsögumaður fyrirtækisins barninu að taka þátt og fór svo að faðirinn og sonurinn tóku hvorugir þátt.

Maðurinn krafðist fullrar endurgreiðslu vegna feðganna en fyrirtækið féllst aðeins á að greiða helming af þeirri fjárhæð. Taldi maðurinn fyrirtækið hafa veitt sér rangar upplýsingar í aðdraganda kaupanna og krafðist tæplega 40 þúsund króna endurgreiðslu.

Fyrirtækið féllst svo á að endurgreiða fullt verð eftir að málið var komið til meðferðar kærunefndarinnar. Af þeim sökum var einkaréttarlegur ágreiningur ekki lengur til staðar og var málinu vísað frá nefndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert