Fræsa og malbika Ártúnsbrekku annað kvöld

Miðakrein til vesturs niður Ártúnsbrekku verður fræsuð og malbikuð á …
Miðakrein til vesturs niður Ártúnsbrekku verður fræsuð og malbikuð á morgun. mbl.is/Golli

Stefnt er á að fræsa og malbika miðakrein til vesturs niður Ártúnsbrekku á fimmtudagskvöld.

Colas greinir frá þessu í tilkynningu.

Kaflinn er um 1,8 km að lengd og verður þrengt í eina akrein og hámarkshraði lækkaður framhjá framkvæmdasvæðinu á meðan framkvæmdum stendur. Römpum frá Höfðabakka og Bíldshöfða verður lokað niður í Ártúnsbrekku. Viðeigandi merkingar og hjáleiðir verða settar upp.

Áætlað er að framkvæmdirnar standi frá kl. 19 á morgun til kl. 6 aðfaranótt föstudags ef veður leyfir.

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Vinnusvæðin eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum, segir að lokum í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert