„Ég mun drepa þig og fjölskyldu þína, sagði hann nokkrum sinnum við skýrslutökuna. Maður veit aldrei hvar maður hefur hann, hann er með mikinn ofbeldishug, þannig að ég tók þessum hótunum mjög alvarlega,“ sagði lögreglumaður sem bar vitni í dómsal í máli Mohamads Kourani í dag.
Aðalmeðferð í máli Kourani fer fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag en hann er ákærður fyrir stunguárásina í OK Market ásamt öðrum brotum.
Lögreglumaðurinn bar vitni fyrir dómsal í dag í gegnum fjarskiptabúnað, en hann tók þátt í rannsókn málsins og tók meðal annars tvær skýrslur af Kourani, sem hann segir að hafi gengið brösuglega.
Lögreglumaðurinn var á bakvakt þegar hann var kallaður út vegna stunguárásar og segir að fljótlega hafi vísbendingar bent til þess að Kourani væri að verki og í kjölfarið hafi leit að honum hafist.
Lögreglumaðurinn fór á vettvang fljótlega eftir útkallið og sækjandi málsins spurði hvort einhver vopn hefðu fundist á vettvangi.
„Það fannst brotið hnífblað. Það sést í upptökum þegar hnífsblaðið brotnar og þá hættir Kourani atlögu sinni.“
Eftir árás Kourani í OK market upplýsti Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari að Kourani hefði einnig staðið í hótunum við sig árum saman og hlotið dóm fyrir. Í heild voru sakarefnin þá líkamsárás, húsbrot, brot gegn nálgunarbanni, eignaspjöll, brot gegn sóttvarnalögum, brot gegn valdstjórninni, fyrir að gabba lögreglu, brot gegn vopnalögum, skjalafals og umferðarlagabrot.
Sagði Helgi eftir árásina í OK market að sér þætti skrítið að ekki væri búið að vísa manninum af landi brott og taldi hann sökina liggja hjá Alþingi. Í kjölfarið sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra að málið sýndi að breytingar væru nauðsynlegar þegar um væri að mál sem tengdist fólki sem hafði fengið vernd hér á landi. Kourani kom til Íslands árið 2018 frá Sýrlandi og er með alþjóðlega vernd hér á landi.