„Gert að vandamáli heilbrigðiskerfisins“

Odd­ur Stein­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Heilsu­gæsl­unn­ar á Kirkju­sandi, heim­il­is­lækn­ir og vara­formaður Lækna­fé­lags …
Odd­ur Stein­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Heilsu­gæsl­unn­ar á Kirkju­sandi, heim­il­is­lækn­ir og vara­formaður Lækna­fé­lags Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Varaformaður Læknafélags Íslands undrar sig á því að lögfræðingar og tryggingafélög greiði lægra tímakaup fyrir útselda vinnu vegna vottorða heldur en hinn almenni borgari. Hann kallar eftir endurskoðun á verðskrá vottorða og fer fram á að verð verði samrýmt. 

„Vottorð sem einstaklingar þurfa sjálfir að greiða, eins og vegna ófrjósemisaðgerða eða örorku til lífeyrissjóðs, tuttugu mínúturnar í þeirri vinnu eru orðnar dýrari. Þetta á bara að vera á sama verði,“ segir Odd­ur Stein­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Heilsu­gæsl­unn­ar á Kirkju­sandi, heim­il­is­lækn­ir og vara­formaður Lækna­fé­lags Íslands, í samtali við mbl.is. 

Til útskýringar segir Oddur að fram til ársins 2023 hafi umrædd vottorð verði á sama verði. Hann fer nánar yfir verðbreytingarnar í færslu á Facebook–síðu sinni en þar kemur fram að á árunum 2021-2024 hafi vottorð til atvinnurekenda, lögfræðinga og tryggingafélaga einungis hækkað um 11% á sama tíma og flest önnur vottorð hækkuðu um 23%.

Vill sjá jafnræði í verðlagi

Hann segir sérstaklega áhugavert að skoða verðmuninn í ljósi þess að álag á lækna vegna vottorða til vinnuveitenda, lögfræðinga og tryggingafélaga sé sífellt að aukast á sama tíma og umrædd vottorð fylgja ekki verðlagsbreytingum eða launabreytingum.  

„Þetta eru vottorð sem einstaklingarnir eru oftast ekki að greiða sjálfir. Þetta endar oftast á því að vera greitt af tryggingafélögunum í bótamálum eða af öðrum,“ segir Oddur og útskýrir að einstaklingar geti vissulega lent í því að þurfa að greiða vottorðið sjálfir tapi þeir máli. „En oftast lendir þetta ekki á einstaklingnum sjálfum.“

Hvernig myndir þú vilja sjá þetta?

„Að minnsta kosti að það sé jafnræði í þessu,“ svarar Oddur og bætir við að um undarlegan afslátt til lögfræðinga og tryggingafélaga sé að ræða. Hann fer því fram á að verðmunurinn verði leiðréttur og sama verð rukkað fyrir vinnuna. 

Álag á lækna vegna vottorða sífellt að aukast.
Álag á lækna vegna vottorða sífellt að aukast. Ljósmynd/Colourbox

Vottorð til skóla hækkað um 265%

Oddur bar jafnframt saman verðbreytingu á vottorðum vegna fjarvista úr skólum og vottorðum til atvinnurekenda vegna veikinda. 

„Vottorð vegna fjarvista úr skólum hækkaði um 265% frá 2021, en þau vottorð þurfa nemendurnir sjálfir að greiða ólíkt atvinnurekendavottorðunum,“ segir í færslu Odds. 

Sjálfur var Oddur formaður svokallaðrar vottorðanefndar sem skilaði af sér drögum að reglugerð um vottorð í janúar á síðasta ári. Hann segir nefndina „aldrei nokkru sinni“ hafa lagt til að gjald á vottorðum vegna fjarvista nemenda yrði hækkað. Það hafi aldrei komið frá læknum heldur frá heilbrigðisráðuneytinu. 

„Nemar greiða þau vottorð sjálfir en það er regin munur á atvinnurekendavottorðunum því þar leggur einstaklingurinn út fyrir þeim og atvinnurekandinn borgar,“ segir Oddur sem undrar sig á misréttinu. 

Verðþróun í andstöðu við ákall lækna

„Þessi verðþróun er að mestu í andstöðu við það sem við höfum verið að berjast fyrir og hvaða hagsmunir ráða eiginlega?“ skrifaði Oddur í færslu sinni á Facebook–síðu sinni og blaðamaður spyr: Græðir ráðuneytið, samfélagið eða einhver annar á þessu?

„Nei, ég get ekki séð að samfélagið græði á þessu og í raun og veru eins og kemur fram endurtekið í fréttum þá er þessi þjónusta orðin skortsvara og þá er mikilvægt að passa upp á hana og það er lágmark að það sé eðlilegt gjald tekið fyrir útselda vinnu í þessu og það hækki í samræmi við verðlag.“

En eins og varðandi nemendur, er nauðsynlegt að gefa út vottorð fyrir þeirra veikindum?

„Nei og það er búið að tala við skólana og það er búið að biðja þá um að hætta þessu,“ svarar Oddur og bætir við að búið sé að ýta í háskólana sem hafi til að mynda verið að hvetja nemendur sem missa af prófum, til dæmis vegna utanlandsferða, til að verða sér út um vottorð til að komast í sjúkrapróf.

„Þetta hefur oft ekkert með heilbrigðisþjónustu að gera,“ segir hann en bætir við að skólarnir hafi tekið sig á og að í dag þurfi almennt ekki að votta fyrir nemendur nema vegna langvarandi veikinda. Hann hefði þó vilja sjá að gjald vegna slíkra vottorða yrði lækkað eða hreinlega fellt niður. 

Oddur segir vottorð oft ekkert hafa með heilbrigðisþjónustu að gera.
Oddur segir vottorð oft ekkert hafa með heilbrigðisþjónustu að gera. Ljósmynd/Colourbox

„Gert að vandamáli heilbrigðiskerfisins“

Öðru þessu tengt nefnir Oddur að læknar hafi lagt það til að verð á vottorðum til atvinnurekenda, sem gerð eru til skemmri tíma og varða minna en viku veikindi, verði hækkað verulega. Fyrir því sé til að mynda að finna fordæmi á Norðurlöndunum. 

„Til að ekki sé verið að nota heilbrigðiskerfið. Ég meina ef einhver fær niðurgangspest í tvo daga þá er það ekki vandamál heilbrigðiskerfisins yfir höfuð, en það er gert að vandamáli heilbrigðiskerfisins af því að sumir atvinnurekendur krefjast þess að fá vottorð.“

Álag eykt og óánægja líka 

Á sama tíma og álag eykst á lækna vegna vottorða ríkir mikil óánægja í samfélaginu í kjölfar fregna af því að síðdegisvaktir á heilsugæslu verði ekki lengur í boði. Oddur segir tiltölulega nýbyrjað að taka á málaflokknum. 

„Það varð eiginlega smá uppreisn og heimilislæknar fóru að neita að gera ákveðna tilvísanir og hluti. Gólfið er komið í smá uppreisn gegn kerfinu,“ segir hann. 

Þá segir Oddur annan þátt spila inn í aukið álag á lækna vegna vottorða og útskýrir fyrir blaðamanni að í drögum að reglugerð um vottorð, sem vottorðanefndin skilaði til heilbrigðisráðuneytisins, hafi nefndin lagt til að læknar ættu einungis að votta það sem þeir gætu sannreynt. 

Þessu hafi aftur á móti verið breytt í þeim drögum að reglugerðinni sem heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér og birti í samráðsgátt, en þar segir að læknar eigi bæði að votta það sem þeir geta sannreynt og það sem fram kemur í sjúkraskrám. 

„Það var einhver sem breytti þessu í ráðuneytinu,“ segir Oddur og rekur tímann sem það getur tekið lækni að fara yfir sjúkraskrár einstaklinga sem geta spannað tugi ár aftur í tímann. 

„Mannaflinn nýttur á sem bestan hátt“

Oddur kallar þó ekki einungis eftir því að verð á vottorðum verði endurskoðað heldur jafnframt verð á komugjaldi á heilbrigðisstofnanir. Það eigi að vera ákveðnar stýringar á þjónustunni. Hann nefnir sem dæmi að í Svíþjóð séu stíf skrópgjöld sem einstaklingar þurfa að greiða mæti þeir ekki í bókaða tíma. 

„Það þarf að endurskoða gjaldskrá fyrir vottorð og í raun og veru þarf að endurskoða gjaldskrá líka fyrir komur og annað upp á að þjónustan verði sem skilvirkust og mannaflinn nýttur á sem bestan hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert