Mohamad Kourani sé siðblindur en sakhæfur

Héraðsdómur Reykjaness
Héraðsdómur Reykjaness mbl.is/Ófeigur

Eftir skoðun og geðmat geðlæknis bendir ekkert til þess að Mohamad Kourani sé ósakhæfur.

Kristinn Tómasson geðlæknir bar vitni í dag í aðalmeðferð í máli Kourani, þar sem hann fór yfir geðmat sitt á manninum. Hann er meðal annars ákærður fyrir stunguárásina sem átti sér stað í OK Market á Hlíðarenda, í mars.

Kristinn segir að hann hafi aldrei hitt mann sem sé jafn mikið sama um annað fólk og metur hann jafnframt siðblindan.

Hann segir að Kourani gerir sér grein fyrir því að gjörðir hans geti haft afleiðingar fyrir aðra, en að honum sé sama um þær.

Metinn hættulegur öðrum  

Að mati Kristins er Kourani með aðsóknarpersónuleikaröskun og áfallastreituröskun. Þá er hann metinn hættulegur öðrum.

Kristinn segir að Kourani fái hluti á heilann og nefnir að hann sé með tvo menn sérstaklega á heilanum og að honum sé alveg sama hvað hann gerir þeim. Annar þeirra er Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.

Eftir árásina í OK Market upplýsti Helgi að Kourani hafi staðið í hótunum við sig árum saman og hlotið dóm fyrir.

Lýsir sér ítrekað sem fórnarlambi

Kristinn segir að erfitt hafi reynst að ræða árásina í OK Market af einhverju viti við Kourani. Hann segir að Kourani hafi ítrekað lýst sér sem fórnarlambi í málinu og snýr atburðarásinni þannig að mennirnir í búðinni hafi ráðist á hann, hann sé góður maður.

Verjandi Kourani spyr hvort að hann geti hlotið viðeigandi meðferð í fangelsisvist og hvort að hún muni bera árangur.

„Það er erfitt að vita hvernig á að tækla hegðun hans. Hann þarf þétta aðstoð við að ná stjórn á andlegum veikindum sem er hægt að veita í fangelsum,“ segir Kristinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert