Myndataka í Vesturbæjarlaug til ákærusviðs

Vesturbæjarlaug.
Vesturbæjarlaug. Ljósmynd/Aðsend

Mál tveggja manna sem voru handteknir í Vesturbæjarlaug í vetur eftir að þeir voru að mynda aðra karlmenn er farið til afgreiðslu hjá ákærusviði lögreglunnar.

Að sögn Ævars Pálma Pálmasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, kom málið upp um miðjan nóvember og lauk rannsókn lögreglu um mánuði síðar.

Vesturbæjarlaug.
Vesturbæjarlaug. Ljósmynd/Aðsend

Báðir á fertugsaldri 

Mennirnir sem voru handteknir eru báðir á fertugsaldri. Þeir eru búsettir hérlendis en eru ekki með íslenskt ríkisfang. Þeir eru sakaðir um að hafa tekið bæði ljósmyndir og myndskeið  af öðrum karlmönnum í karlaklefa laugarinnar.

Ævar Pálmi segir að ákærusviðið muni taka ákvörðun um hvort mennirnir verði ákærðir eður ei. Spurður út í mögulega refsingu við athæfinu segir hann málið flokkast undir stafrænt kynferðisbrot þar sem refsiramminn er allt að fjögurra ára fangelsi.

„Það koma af og til upp mál tengd sundlaugum þar sem símar eru á lofti og fólk grunar einhvern annan um að vera að taka myndir eða myndbönd,“ segir Ævar Pálmi.

Í apríl síðastliðnum var birt­ur dóm­ur frá Héraðsdómi Reykja­vík­ur þar sem maður var dæmd­ur vegna mynda­töku í Naut­hóls­vík í júlí árið 2022. Hann hlaut 30 daga skil­orðsbund­inn dóm og var hon­um gert að greiða brotaþola 400 þúsund krón­ur í miska­bæt­ur auk vaxta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert