Sætin ekki betri en önnur og fær endurgreitt

Flugsætin voru auglýst sem betri sæti en svo kom annað …
Flugsætin voru auglýst sem betri sæti en svo kom annað á daginn. Ljósmynd/Pexels

Manni var heimilt að afpanta pakkaferð eftir að hann fékk veður af því að sætin sem hann pantaði væru ekki betri en önnur sæti. Fékk hann pakkaferðina sem kostaði rúmlega milljón króna endurgreidda.

Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa.

Maðurinn keypti pakkaferð fyrir sig og samferðakonu sína sem kostaði rúmlega eina milljón króna. Borgaði maðurinn 100 þúsund krónur fyrir betri sæti í flugvélinni báðar leiðir.

Verðmunurinn 16 til 21 þúsund

Af skjámynd sem maðurinn lagði fyrir nefndina mátti sjá að sætin í flugvélinni vöru auglýst sem „almenn sæti“ eða „betri sæti“. Sætin í 17. röð til 33. raðar voru almenn sæti og þau í 1. til 16. röð voru betri sæti. Verðmunurinn á þessum sætum var á bilinu 16 til 21 þúsund krónur.

Vegna bakverkja sem hrjáir manninn valdi hann betri sæti. Nánar tiltekið 16D og 16F á útleið og 16A og 16C á heimleið. Sætin í miðjunni voru ekki til sölu þegar maðurinn pantaði sætin.

Nokkru síðar öðlaðist maðurinn vitneskju af því að sætin í miðjunni, 16B og 16E, voru komin í sölu og kostuðu 17 þúsund krónur. Til samanburðar greiddi maðurinn tæpar 25 þúsund krónur fyrir sætin sín.

Mætti búast við öðrum gæðum

Þegar maðurinn fór þess á leit við ferðaskrifstofuna að fá skýringar á þessu fékk hann þau svör að öll sætin í vélinni væru eins. Daginn eftir að hann fékk vitneskju um þetta afpantaði hann ferðina.

Í niðurstöðukafla úrskurðarins segir að það sé mat nefndarinnar að maðurinn hefði mátt búast við því að sætin sem hann greiddi fyrir væru búin öðrum kostum en einungis þeim að þau væru í fremri hluta vélarinnar.

Þá bendir nefndin á að verðið sem maðurinn greiddi fyrir sætin hafi numið um 10% af heildarvirði pakkaferðarinnar. Hann hafi afpantað strax og hann fékk vitneskju um gæði sætanna en fyrir það hafði hann enga ástæðu til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert