Sex ráðherrar myndu missa sætið sitt á þingi

Fylgistapið er minnst þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir og Þórdís Kolbrún …
Fylgistapið er minnst þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir eru oddvitar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír af fjórum ráðherrum Framsóknar og allir ráðherrar Vinstri grænna myndu missa þingsæti sín ef gengið yrði til kosninga í dag, ef aðeins er miðað við kjördæmakjörna þingmenn, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað fylgi í öllum kjördæmum en þó minnst í Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi. Vinstri græn mælast ekki með mann á þing í neinu kjördæmi.

Gallup birti þjóðarpúls Gallup fyrir tveimur dögum en mbl.is hefur fengið gögn frá þeim þar sem niðurstöðunum er skipt upp eftir kjördæmum.

Vert er að taka fram að vikmörk kunna að vera mismikil, en talsvert færri svör berast úr stökum kjördæmum.

Lilja og Ásmundur ná ekki inn á þing

Í Reykjavík suður mælist Framsókn með 3,7% fylgi og því myndi Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, ekki ná inn á þing.

Sjálfstæðisflokkurinn, leiddur af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, myndi þá tapa 7,3 prósentustigum ef miðað er við könnunina og úrslit síðustu kosninga. Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra kæmist þá ekki á þing fyrir VG. 

Í Reykjavík norður nær Framsókn heldur ekki mann inn og því myndi Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ekki ná inn á þing.

Sjálfstæðisflokkurinn, leiddur af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, er með tæplega 14% stuðning. Samfylkingin er með 32,4% stuðning í kjördæminu.

Sjálfstæðisflokkurinn tapar 8,3%

Í Suðvesturkjördæmi er Framsókn með 5% stuðning og myndi ekki fá inn kjördæmakjörinn þingmann. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra leiðir flokkinn í því kjördæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn, leiddur af Bjarna Benediktssyni, myndi tapa 8,3 prósentustigum ef miðað er við könnunina og úrslit síðustu kosninga.

VG nær ekki manni á þing í kjördæminu og því myndi Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, missa sætið sitt. 

Framsókn tapar 16,3% í kjördæmi formannsins

Í Suðurkjördæmi mælist Samfylkingin naumlega með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn og bætir töluverðu við sig. 493 svör bárust úr kjördæminu og verður aftur að hafa í huga að vikmörkin eru meiri.

Sjálfstæðisflokkurinn, leiddur af Guðrúnu Hafsteinsdóttur, tapar afar litlu fylgi og mælist með tæplega 22%.

Framsókn hefur oft verið sterkur flokkur í kjördæminu og er þar leiddur af Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni flokksins. Flokkurinn fengi hins vegar 16,3 prósentustigum minna fylgi ef miðað er við könnunina og úrslit síðustu kosninga.

Miðflokkur sækir í sig veðrið í kjördæminu og mælist með 17,5%.

Fá svör í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi

Í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi sækir Samfylkingin í sig veðrið, eins og í öllum kjördæmum reyndar.

Framsókn tapar miklu í báðum kjördæmum á sama tíma og Miðflokkurinn bætir við sig.

VG nær ekki manni inn í Norðausturkjördæmi og því myndi Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra missa sætið sitt. 

Sjálfstæðisflokkurinn í Norðvesturkjördæmi, sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir leiðir, tapar afar litlu. Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi mælist með 15,5%.

Í Norðvesturkjördæmi bárust aðeins 260 svör og í Norðausturkjördæmi svöruðu 371.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert