Skjálftahrina í Langjökli

24 jarðskjálftar hafa mælst í Langjökli síðustu tvo sólarhringa.
24 jarðskjálftar hafa mælst í Langjökli síðustu tvo sólarhringa. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Töluverðrar jarðskjálftahrinu hefur orðið vart í Langjökli og í grennd við Húsafell í nótt og í morgun.

Skjálftar af stærð 3,3 og 2,9 urðu tæplega 18 kílómetra suð-suðvestur af Eiríksjökli á fjórða tímanum í nótt og að sögn Böðvars Sveinssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, hafa mælst 24 skjálftar á þessu svæði síðustu tvo sólarhringa.

„Það koma jarðskjálftar á þessu svæði af og til en þetta er í Langjökli norðaustur af Geitlandsjökli,“ segir Böðvar við mbl.is.

Talsverð virkni undanfarin ár

Hann segir að talsverð skjálftavirkni hafi verið á þessu svæði árin 2021 og 2022 og í byrjun árs 2023.

Þá hefur verið töluverður hristingur á svæði um 18 kílómetra aust-suðaustur af Húsafelli og segir Böðvar að skjálftar á þessu svæði hafa verið nokkuð tíðir á síðustu árum. Í nótt og í morgun hafa mælst hátt í tíu skjálftar, sá sterkasti 1,6 að stærð.

Að sögn Böðvars er allt með kyrrum kjörum á Reykjanesskaganum. „Það er allt mjög rólegt þar eins og er,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert