Tilnefna næsta umboðsmann Alþingis í haust

Frá setningu Alþingis á síðasta ári.
Frá setningu Alþingis á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsætisnefnd Alþingis mun tilnefna mann til að gegna embætti umboðsmanns Alþingis fyrir lok septembermánaðar.

Frá þessu er greint á vef Alþingis.

Alþingi kýs umboðsmann til fjögurra ára í senn en hann er trúnaðarmaður sem starfar á vegum þingsins. Honum berast kvörtunarmál frá borgurum og getur hafið mál að eigin frumkvæði en honum er ætlað að tryggja rétt borgaranna.

Hægt að koma með ábendingu um umsækjanda

Á vef Alþingis segir að menn geti sótt um embættið en að jafnframt megi koma með ábendingar um einstakling í embættið. Umboðsmaður Alþingis skal uppfylla skilyrði laga til að mega gegna embætti hæstaréttardómara og má ekki vera alþingismaður.

Fráfarandi umboðsmaður Alþingis er Skúli Magnússon sem hlaut nýverið skipun í embætti dómara við Hæstarétt Íslands.

Tekur hann við embætti 1. október en Ingveldur Einarsdóttir varaforseti Hæstaréttar kveður dóminn í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert