„Ýmislegt“ hafi farið úrskeiðis

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði. mbl.is

Dómsmálaráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að „ýmislegt“ hafi farið úrskeiðis í inntökuferlinu þegar 20 af 42 umsækjendum um inngöngu í fangavarðarnám voru valdir í byrjun árs.

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá ráðuneytinu, við spurningum mbl.is um inntökuferlið.  

„Það sem fór úrskeiðis hefur ekki áhrif á þá efnislegu niðurstöðu að veita þeim inngöngu sem hana fengu,“ segir jafnframt í svarinu.

Þar segir einnig að mikilvægt sé að Fangelsismálastofnun dragi lærdóm af þessu máli.

„Ráðuneytið treystir því að faglega verði staðið að inntökuferlinu í framtíðinni.“

Hæfir umsækjendur fengu ekki inn

RÚV greindi frá því í dag að 42 umsækjendur hefðu sótt um inngöngu í fangavarðanám og nokkrir þeirra sem ekki komust inn hefðu kært ákvörðunina. 

Vitnar miðillinn í úrskurð dómsmálaráðuneytisins vegna kæru eins umsækjanda. Verulegir ágallar hafi verið á ákvörðuninni sem venjulega hefði leitt til ógildingar hennar.

Ekki hafi verið notast við málefnalega mælikvarða og vinnan verið bæði ónákvæm og óviðunandi. Það hafi síðan leitt til þess að hæfir umsækjendur hafi ekki fengið inn í námið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert