Búið að útskrifa alla nema einn

Rútan keyrði út af veginum í Öxnadal í síðasta mánuði.
Rútan keyrði út af veginum í Öxnadal í síðasta mánuði. mbl.is/Þorgeir

Búið er að útskrifa alla nema einn af sjúkrahúsi eftir að rúta með 22 tékkneska ferðamenn valt í Öxnadal í síðasta mánuði.

Fimm voru lagðir inn á sjúkra­húsið á Akureyri og fimm voru fluttir með þyrlu og sjúkra­flug­vél­um á Landspítalann. Þeir sem voru inniliggjandi á sjúkrahúsinu á Akureyri hafa allir verið útskrifaðir en einn er enn á Landspítalanum. Sá er kominn til meðvitundar og er ekki í lífshættu.

Rannsókn lögreglu á slysinu stendur enn yfir og er langt komin en meðal annars er beðið gagna úr bíltæknirannsókn að sögn Rutar Herner Konráðsdóttur, lögreglufulltrúa á Akureyri.

Ögmundur Skarphéðinsson, ræðismaður Tékklands á Íslandi, segir að nokkuð sé um liðið síðan afskiptum ræðisskrifstofu Tékklands í Reykjavík og sendiráði þess í Osló lauk af slysinu en það hafi gerst þegar tryggingarfélag farþeganna hafi tekið við málinu.

„Mér er ekki kunnugt um hvort allir farþegarnir séu komnir til síns heima, en enginn hefur óskað aðstoðar ræðisskrifstofunnar síðustu vikurnar sem bendir til jákvæðrar framvindu,“ segir Ögmundur í skriflegu svari til mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert