„Ekki staðið nægi­lega vel að vali á nem­end­um“

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir mikið álag hafa verið á öllu …
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir mikið álag hafa verið á öllu fullnustukerfinu síðustu misseri. mbl.is/Hari

Fangelsismálastjóri segist harma að hæfir nemendur hafi ekki getað hafið fangavarðanám. Hann segir að meðal annars hafi tímapressa átt þátt í hvernig inntökuferlið hafi verið framkvæmt.

„Það var ekki staðið nægilega vel að vali á nemendum í skólann en það var meðal annars vegna tímapressu þar sem var ákveðið með skömmum fyrirvara að fara þessa leið að starfrækja skólann í samstarfi við menntasetur lögreglu,“ segir Páll. Stefnt hafi var á að setja nýja reglugerð um skólann en það hafi ekki klárast innan tímarammans.

Dómsmálaráðuneytið kvað upp úrskurð nýverið þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að verulegir ágallar hafi verið á inntöku í fangavarðanám. Ekki hafi verið notast við málefnalega mælikvarða og vinnan hafi verið bæði ónákvæm og óviðunandi. Fangamálastofnun fól mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar að sjá um inntökuferlið.

Aftur boðið upp á nám á næsta ári

Hann segir að á síðustu misserum hafi verið mikið álag á öllu fullnustukerfinu. Nefnir hann sem dæmi uppbyggingu nýs fangelsis og heildarstefnu í fullnustukerfinu. Meðal þess hafi einnig verið undirbúningur nýs fyrirkomulags reksturs fangavarðaskóla sem hafi verið unnið undir mikilli tímapressu.

„Mér þykir leitt að hæfir nemendur hafi ekki fengið tækifæri til að hefja nám við skólann en undirstrika að það verður aftur boðið upp á nám við skólann í upphafi næsta árs. Við þurfum að passa í samstarfi við menntasetrið að vanda til verka og gera betur en síðast,“ segir Páll.

Spurður hvort einhverjar aðrar ástæður höfðu áhrif á hvernig inntökuferlið var framkvæmt segir Páll að það hefði mátt vanda betur til verka.

Vonast eftir nýrri reglugerð

Spurður hvernig verði bætt úr ferlinu fyrir næstu inntöku segist Páll gera ráð fyrir að ný reglugerð verði sett um námið.

„Það verði þá farið betur yfir allt þetta ferli og passað að það verði unnið málefnalega og tímalega þannig að það sé hægt að gæta að öllum form- og efnisreglum stjórnsýsluréttar og annarra reglna sem gilda á þessu sviði,“ segir Páll.

Er það ekki miður fyrir þá sem horfa upp á að komast ekki í námið vegna inntökuferlisins?

„Jú það er vissulega miður. Þetta er tilraunaverkefni sem stendur til tveggja ári og það stóð alltaf til að taka tvisvar sinnum tuttugu nemendur inn og það voru fjörutíu og tveir sem sóttu um og ég vonast til þess að þetta gangi að tuttugu nemendur komist inn næst og þá getum við tekið alla hæfa umsækjendur inn,“ segir Páll.

Spurður hvort mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar muni aftur sjá um inntökuferlið að ári segir Páll að það verði unnið í samstarfi við setrið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert