Fyrrverandi sóknarprestur hafði betur gegn kirkjunni

Þjóðkirkjan er skaðabótaskyld vegna ákvörðunar um að fella niður boð …
Þjóðkirkjan er skaðabótaskyld vegna ákvörðunar um að fella niður boð um nýtt embætti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þjóðkirkjan er skaðabótaskyld gagnvart Kristni Jens Sigurþórssyni, fyrrverandi sóknarpresti í Saurbæjarprestakalli í Vesturlandsprófastsdæmi, samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.

Ágreiningur reis milli Kristins og Þjóðkirkjunnar eftir að kirkjuþing tók ákvörðun um að leggja Saurbæjarprestakall niður 3. mars árið 2019. Þangað til hafði Kristinn verið ótímabundinn sóknarprestur síðan árið 1996.

Braut gegn meðalhófsreglu

Kristni var boðið að taka við nýju embætti eftir að prestakallið var lagt niður. Þáði hann boðið nokkru síðar en Þjóðkirkjan tilkynnti honum þá að boðið hefði fallið niður og tók hann ekki við nýju embætti.

Niðurstaða dómsins er sú að Kristinn hefði með réttu gæta vænst þess að boðið um nýtt embætti stæði enn þá þegar hann ákvað að taka því. Með ákvörðun Þjóðkirkjunnar um að boðið væri fallið niður braut kirkjan meginreglu stjórnsýsluréttarins um meðalhóf. Gekk þetta þvert gegn réttmætum væntingum Kristins.

Kristinn hefur komið fyrir í fjölmiðlum á síðustu misserum en hann tók þátt í umræðu um ráðningarsamning Agnesar M. Sigurðardóttur, þáverandi biskups Íslands. Kallaði hann meðal annars eftir lögreglurannsókn í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert