Gám stolið: Segir flutningafyrirtækið bera ábyrgð

Gámurinn á Fiskislóð þar sem hann stóð áður en hann …
Gámurinn á Fiskislóð þar sem hann stóð áður en hann var fluttur á Hólmsheiði. Ljósmynd/Almar Gunnarsson

Almar Gunnarsson, eigandi pípulagningafyrirtækisins Landslagna ehf., stendur frammi fyrir verulegu tjóni eftir að gámur, staðsettur á einkalóð hans við Fiskislóð í Reykjavík, var fluttur án hans vitundar. Vísir greindi fyrst frá.

Í gámnum voru hreinlætis- og pípulagningavörur að andvirði tíu til fimmtán milljóna króna, sem nú eru horfnar.

Í viðtali við mbl.is lýsir Almar atburðarásinni:

„Ég var með gám út á Fiskislóð. Bara 40 feta gám sem ég var með þar og var með fullt af verðmætum í honum, hreinlætistæki og fleira.“

Almar útskýrði að Landslagnir ehf. hefðu ekki eiginlega starfsemi á Fiskislóð, heldur væri þar aðeins geymslulóð. Hann komst að því að gámurinn hafði verið fluttur á Hólmsheiði og tæmdur þar.

„Þetta gerðist 27. júní. Ég fann gáminn á Hólmsheiði þremur dögum eftir að hann hvarf.“

Þjófarnir notuðu frelsisnúmer

Almar vissi síðast af gámnum á sínum stað sama dag og hann hvarf. Hann hefur ekki hugmynd um hverjir gætu hafa verið að verki en telur að einhver hafi hringt í flutningaþjónustuna ET og beðið um að flytja gáminn.

Þjófarnir notuðu að öllum líkindum frelsisnúmer til að hringja og biðja ET um að flytja gáminn án frekari staðfestingar eða samskipta.

„Einhver þjófur hringir bara í ET-flutninga, það er svo skrítið í þessu, hann hringir bara í ET-flutninga að degi til, með einhvern síma bara svona frelsisnúmer, hringja í ET og ET fer með bíl og nær í gáminn og skutlar honum upp á Hólmsheiði án þess að tala við einn né neinn.“

Flutningafyrirtækið firrar sig ábyrgð

Almar hafði aldrei áður átt í viðskiptum við ET-flutninga. Hann komst að því hver hafði flutt gáminn eftir að hafa hringt í öll flutningafyrirtækin, með aðstoð lögreglu. Þegar hann náði sambandi við ET sögðu þeir honum að tala við lögfræðing.

„Þeir sögðu bara talaðu við lögguna eða lögfræðing, þeim bara kæmi þetta ekkert við.“

Verðmætin töpuð

Almar metur tjónið á 10 til 15 milljónir króna og telur að flutningaþjónustan beri ábyrgð á flutningnum þar sem þeir framkvæmdu flutninginn án staðfestingar frá honum. Hann hefur leitað til lögmanna og tryggingafélags síns til að fá tjónið bætt.

„Ég er búinn að tala við lögmenn og tryggingar. Þetta er bara í skoðun hjá tryggingunum og lögmaðurinn er búinn að senda kröfu á ET.“

Almar telur að slíkir atburðir geti gerst aftur ef flutningafyrirtæki setji sér ekki strangari reglur varðandi hverjir geti beðið um þjónustu þeirra.

„Þetta væri svona eins og ef ég myndi bara panta sendibíl og láta ná í reiðhjól fyrir utan heima hjá þér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert