Héldu fyrst að um líkamsárás væri að ræða

Að sögn Unnars hljóta lögreglumenn þjálfun í forgangsakstri.
Að sögn Unnars hljóta lögreglumenn þjálfun í forgangsakstri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mögulega eru til einhver dæmi þess eðlis þegar maður fer að horfa tilbaka hvort þetta sé réttlætanlegt að vera í eftirför eða ekki. Það er eitthvað sem maður þarf að setjast yfir hverju sinni og fara yfir - sem við gerum,“ segir Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um eftirför sem lögregla veitti tveimur mönnum á rafhlaupahjóli í fyrradag.

Vísir greindi frá því á dögunum að lögregla hefði veitt mönnum á rafhlaupahjóli eftirför í vesturhluta Reykjavíkur. Í myndbandi sem fylgir frétt þeirra sést lögreglubíll keyra af götunni yfir á gangstétt í eftirför eftir mönnunum tveimur sem flúðu á rafhlaupahjóli.

Í fréttinni kom fram að mennirnir hefðu, í reiðiskasti, valdið skemmdum á ökutækjum við Granda í Reykjavík áður en þeir flúðu vettvang. 

Leit upphaflega verr út

Spurður hvort eðlilegt þyki að veita eftirför á þennan hátt, keyra bifreið á göngustíg, fyrir brot líkt og skemmdaverk svarar Unnar að upphaflega hafi málið litið verr út en að varð svo raunin. 

„Upprunalega tilkynningin er sú að það er tilkynnt um líkamsárás og þegar lögreglumennirnir koma á staðinn fyrst þá eru brotaþolar þarna í öngum sínum og benda lögreglu hvert þeir fóru. Svo kemur í ljós þegar það er búið að vinna málið og handtaka þá að þetta eru eignarspjöll.“

Nefnir þá Unnar að lögregla setjist alltaf niður eftir svona mál og dragi lærdóm af þeim.

„...af því að okkar vinna er bara þannig að við viljum alltaf gera eins vel og við getum hverju sinni og þetta er bara liður í því að taka málin okkar og skoða þau. 

Að sögn Unnars er þó alltaf hugsað fyrst og fremst um öryggi einstaklinga þegar veitt er eftirför. 

„Þegar það kemur að eftirför þá eru ákveðnar leikreglur þar sem við erum með. Þær eru ávallt þannig að við hugum rosalega mikið að öryggi – þá ekki bara vegfarandanna sjálfa heldur líka þeim sem við erum að veita eftirför og okkar,” segir Unnar 

Eitt það hættulegasta sem lögreglan gerir

Um eftirförina segir Unnar að stanslaust sé verið að meta hversu langt skuli ganga þegar veitt sé eftirför – þá sérstaklega þegar um er að ræða bifhjól eða rafhjól. Nefnir hann þá að starfsmenn lögreglunnar hljóti þjálfun í forgangsakstri.

„Þetta er náttúrulega þannig að okkar fólk fær þjálfun í að aka ökutækjum okkar og meta áhættu sem felst í akstrinum að keyra forgangsakstur. Það fer verkleg þjálfun í það. Síðan er það alltaf þannig að yfirmaður getur alltaf tekið ákvörðun um að stoppa eftirförina. Þannig við erum mjög, mjög vakandi yfir þessu – í áhættumatinu og hvernig það er,“ segir Unnar og undirstrikar hann jafnframt hættuna sem eftirförum fylgir.

„Við hugum mjög mikið af öryggi vegfaranda þegar komið er í þessar eftirfarir. Þetta er eitt það alhættulegasta sem við gerum í umferðinni,“ segir Unnar og bætir við:

„Þetta er bara svo hættulegt fyrir okkar starfsfólk. Þetta bara stórhættulegt. Fyrir utan hættuna sem vegfarendur eru í.“

Gera sér oft ekki grein fyrir hættunni

Nefnir Unnar að fólki sem veitt er eftirför geri sér oft ekki grein fyrir því í hvaða hættu það sjálft er og hverjum það sé að stofna í hættu með hegðun sinni. 

Aðspurður segir Unnar að ekki hafi komið til tals hjá lögreglunni að notast sjálf við rafhlaupahjól.

„Nei það hefur ekki komið til tals hjá okkur mikið en við erum hins vegar með rafreiðhjól og hefðbundin reiðhjól. Við höfum svo sem ekki tekið umræðu sérstaklega um það að fara í þessi rafhlaupahjól enda kannski nýtast þau ekki það mikið fyrir okkur“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert