Hlaupaleiðin ekki rétt mæld og árangur ekki skráður

Frá Ármannshlaupinu í fyrrakvöld.
Frá Ármannshlaupinu í fyrrakvöld. Mynd/Facebook-síða frjálsíþróttadeildar Ármanns

Árangur þeirra hlaupara sem tóku þátt í Ármannshlaupinu í fyrrakvöld verður ekki skráður í afrekaskrá Frjálsíþróttasambands Íslands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá frjálsíþróttadeild Ármanns til þeirra hlaupara sem tóku þátt í Ármannshlaupinu en yfir 400 manns tóku þátt í því.

Í tilkynningunni segir:

„Við nánari eftirgrennslan hefur komið í ljós að í Ármannshlaupinu 2. júlí 2024 var hlaupaleiðin ekki mæld rétt og skekkjan er þess eðlis að hlaupaleiðin telst of stutt til að árangur hljóti vottun Frjálsíþróttasambandsins. Hlaupaleiðin reyndist 50 metrum styttri eða 9,943 km.“

Fram kemur í tilkynningunni að um mannleg mistök hafi verið að ræða við mælingu brautar þar sem breytingar á hlaupaleið hafi verið gerðar með skömmum fyrirvara vegna framkvæmdar.

„Allir hluteigandi aðilar harma þessa niðurstöðu en það er mikilvægt að eftirlit með hlaupaviðburðum virki líka þegar einhver grunur vaknar um framkvæmdina,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Þar segir einnig að úrslit og Íslandsmeistaratitlar í Ármannshlaupinu muni standa en árangur hlaupara verði ekki skráður í afrekaskrá Frjálsíþróttasambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert