Hringja í gamla „bólfélaga“ og opna Kiki á ný

Margrét Erla Maack er nýr skemmtanastjóri hinsegin staðarins Kiki.
Margrét Erla Maack er nýr skemmtanastjóri hinsegin staðarins Kiki. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson/Kristín Ásta

Hinsegin skemmtistaðurinn Kiki á Klapparstíg opnar dyr sínar á ný í kvöld. Margrét Erla Maack, nýr skemmtanastjóri staðarins, segir einhverjar breytingar í vændum en að staðurinn muni þó halda í gamla andann.

„Þetta er ekki hallarbylting, það er fullt af fólki sem á sína Kiki og þekkir sína Kiki,“ segir Margrét í samtali við mbl.is.

Staðurinn hefur verið eigu Uptown ehf., félags Þóris Jóhannssonar, frá árinu 2014. Félagið Partýbær ehf, í eigu veitingamannsins Guðfinns Sölva Karlssonar, betur þekktum sem Finna, hefur tekið yfir reksturinn en Finni er einn stofnenda staðarins.

Kunnug andlit verði áfram á barnum

Margrét segir mikið af sama starfsfólkinu halda áfram og jafnvel sumt fyrra starfsfólk snúa aftur. Opnunarkvöldið hefjist með karaoke, eða svokölluðu Kikioke, sem hefð sé fyrir á fimmtudögum. Föstudags-dragdrottning staðarins, Faye Knús, haldi síðan stemmingunni uppi annað kvöld.

„Þannig við erum svona að hringja í gamla bólfélaga,“ segir Margrét og hlær.

„Langalgengasta spurningin sem við erum að fá er hvort við verðum ekki áfram með Eddu í hurðinni og að sjálfsögðu verður Edda dyravarðardrottning í hurðinni og auðvitað einhver andlit á barnum sem fólk kannast við.“

Skemmtistaðurinn Kiki opnar dyr sínar á ný í kvöld.
Skemmtistaðurinn Kiki opnar dyr sínar á ný í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn að leita að rofanum á flamingóafuglaskiltinu

Blaðamaður náði tali af Margréti á milli atriða í dag en hún segir enn í nægu að snúast fyrir opnunina í kvöld, eins og að finna rofann sem kveikir á frægu flamingóafuglaskilti staðarins.

Eigendaskiptin hafi verið skjót líkt og tíðkast í skemmtanabransanum og ekki hafi komið til greina að halda staðnum lokuðum til umbóta í meira en viku.

„Kiki getur ekki verið að slaka á júlí.“

Aðspurð kveðst Margrét hafa hug á að koma á ýmsum breytingum með tímanum. Fyrst og fremst vilji nýir rekstraraðilar leggja áherslu á öruggt skemmtistaðaumhverfi, einkum fyrir hinsegin samfélagið.

Margrét segir Kiki muna loka fyrr en hefur tíðkast hingað …
Margrét segir Kiki muna loka fyrr en hefur tíðkast hingað til. mbl.is/Ari

Vilja vera dansstaður ekki klúbbur

Sömuleiðis vilji þau halda áfram að leggja áherslu á að skapa rými fyrir hinsegin samfélagið með ýmsum viðburðum og þema-kvöldum.

„Við ætlum bara að taka vel utan um þetta barn sem við ættleiddum. Hlúa vel að því og hjálpa því svo að stækka og verða betra.“

Fyrsta mál á dagskrá sé aftur á móti að stytta opnunartímann til þrjú, nema við sérstök tilefni, en staðurinn er með leyfi til að hafa opið til fimm.

„Í staðinn fyrir að vera klúbbur ætlum við að vera dansstaður,“ segir Margrét.

„Djammið hefur breyst“

Hún segir ástæður þess margar og meðal annars gott að láta við staðið á meðan leikurinn sé góður. Fyrst og fremst sé það þó vegna þess að djammið hafi breyst á síðustu árum.

„Djammið hefur breyst. Djammið byrjar fyrr og er að hætta fyrr. En svo eru nokkrir staðir sem eru opnir lengi og eru að taka á móti þeim sem vilja halda áfram.“

Þá segir Margrét umbætur einnig hafa verið gerðar á barseðli staðarins enda sé hjartað í allri barstarfsemi lifrin. Hún eigi von á góðum viðtökum frá bæði gömlum sem og nýjum gestum enda þyki mörgum afar vænt um staðinn og bíði með eftirvæntingu eftir því að dyr hans opni á ný.

„Svo er ofboðslega gaman fyrir gamla djammtúttu eins og mig að búa til kokteilaseðil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert