Sorgardagur en tækifæri fyrir hendi

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og þingmaður Norðvesturkjördæmis, segir daginn í dag vera sorgardag fyrir Akranes vegna gjaldþrots Skagans 3X. Einnig sé hann sorgardagur fyrir þann stóra hóp sem missti vinnuna og fjölskyldur þeirra.

Tæplega 130 manns missa vinnuna hjá fyrirtækinu og þar af eru um 100 manns búsett á Akranesi. 

„Hafði vonir og væntingar“

Þórdís Kolbrún nefnir að hjá Skaganum 3X hafi verið fjölbreytt sérfræðistörf sem almennt sé eftirsóknarvert að hafa í bænum í bland við annað atvinnulíf.

„Auðvitað var ég að vona að framtíð þessa fyrirtækis yrði áfram á Akranesi," segir hún og bætir við: „Ég hafði vonir og væntingar um að þetta öfluga fyrirtæki sem keypti [Baader] gæti stuðlað að því og tryggt að þarna yrði áframhaldandi starfsemi og jafnvel uppbygging en ekki þessi niðurstaða," segir hún, innt eftir viðbrögðum við gjaldþrotinu.

Þórdís Kolbrún segir Akranes vera orðið nokkuð stórt bæjarfélag, sem telji rúmlega átta þúsund manns, en fjölbreytileiki atvinnulífsins endurspegli þennan fjölda því miður ekki. „Þetta er mikið áfall fyrir bæjarfélagið og bætist ofan á aðra þætti. Um þriðjungur Skagamanna sækir vinnu á höfuðborgarsvæðinu og þetta heggur mjög í atvinnumálin á Akranesi."

Getum gert betur 

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði í samtali við mbl.is í morgun ástandið í atvinnumálum á Akranesi vera grafalvarlegt, bæjarfélagið hefði gengið í gegnum miklar hremmingar í þeim efnum og að stjórnvöld bæru að hluta til ábyrgð. Þrátt fyrir góða innviði hefði ekki tekist að efla atvinnulífið og ef ekkert yrði að gert myndi því blæða endanlega út.

Akranes.
Akranes. mbl.is

Spurð út í atvinnumálin í bænum segir Þórdís Kolbrún það rétt að innviðir fyrir alls kyns fyrirtækjarekstur séu fyrir hendi. Mikil gæði séu til staðar fyrir fjölskyldufólk, eins og skóla- og íþróttastarf, ásamt nálægt við höfuðborgarsvæðið. Í því samhengi nefnir hún að vonandi styttist í að Sundabraut verði raunverulega sett á dagskrá.

„Hlutverk stjórnmálanna er fyrst og fremst að vera með fyrirsjáanlegar leikreglur og fylgja þeim, vera með umhverfi fyrir fyrirtæki þannig að það sé framúrskarandi og við getum svo sannarlega gert betur í því," greinir hún frá en bendir á að bæjarfélagið þurfi líka að vera með skýra sýn þannig að framtakssemi og kraftur bæjarbúa og fólks „sem horfir á Akranes með tækifærisgleraugum" nýtist til að efla atvinnulífið.

Sterkir á Grundartangasvæðinu

Ráðherrann segir ýmis tækifæri vera fyrir hendi fyrir nýsköpun og afleiddar greinar þar sem Skagamenn eru sterkir eins á Grundartangasvæðinu. Einnig segir hún Akranes eiga mikið inni í ferðaþjónustu en Vilhjálmur benti einmitt á það í facebookfærslu sinni að ekkert hótel væri á Akranesi og fyrir vikið væri bæjarfélagið ekki með þegar kæmi að ferðaþjónustu. 

Grundartangi.
Grundartangi. Ljósmynd/Faxaflóahafnir

„Tækifærin eru þarna en það breytir því ekki að þetta er mikið áfall fyrir Akranes og sérstaklega það fólk sem hefur starfað þarna og fjölskyldur þeirra. Þetta kallar á að við öll sem höfum hag Skagamanna fyrir brjósti og sömuleiðis svæðisins og verðmætasköpunar í landinu finnum tækifærin til að byggja upp."

Jafnframt kveðst Þórdís Kolbrún vona að hægt verði að byggja ofan á þá þekkingu sem fólkið sem starfaði hjá Skaganum 3X býr yfir. „Fyrirtæki koma og fara en þessi mannauður, sérfræðiþekking og reynsla er þarna. Vonandi verður einhvern veginn hægt að sá öðrum fræjum, að minnsta kosti að hluta til."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert