Bræður gefa safninu fjögur Kjarvalsverk

Frá vinstri: Edda Halldórsdóttir, verkefnastjóri skráningar hjá Listasafni Reykjavíkur, bræðurnir …
Frá vinstri: Edda Halldórsdóttir, verkefnastjóri skráningar hjá Listasafni Reykjavíkur, bræðurnir Einar Rúnar, Árni, Jón og Halldór, Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, og Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna Listasafns Reykjavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Fjögur málverk hafa bæst í safn verka eftir listamanninn Kjarval á Listasafni Reykjavíkur. Fjórir bræður afhentu safninu verkin að gjöf en afi þeirra hafði komið upp merku málverkasafni á sínum tíma.

Fram kemur í tilkynningu frá Listasafni Reykjavíkur að bræðurnir Jón, Halldór, Árni og Einar Rúnar Guðmundssynir og fjölskyldur þeirra hafi afhent safninu veglegu listaverkagjöfina í júní.

Íþróttakennari og listaverkasafnari

Greint er frá því að afi bræðranna, Jón Þorsteinsson, hafi verið íþróttakennari og listaverkasafnari. Hann hafi komið upp merku málverkasafni sem var að stórum hluta byggt á verkum Kjarval.

Jón Þorsteinsson og kona hans, Eyrún Guðmundsdóttir, hafa fært Listasafni Reykjavíkur fjölmörg listaverk eftir Kjarval sem teljast lykilverk í Kjarvalssafni. Eitt af þeim verkum er Bónorðið, sem prýddi forsíðu bókar Thors Vilhjálmssonar um ævistarf Jóhannesar Kjarval.

„Listasafn Reykjavíkur þakkar fjölskyldunni af heilum hug höfðinglega gjöf og mun leitast við að sýna og rannsaka þau í samhengi listasögunnar um ókomna tíð,“ stendur í tilkynningu listasafnsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert