„Ekkert fullorðið fólk myndi sætta sig við þetta“

Mun fleiri nemendur útskrifast með B í einkunn úr grunnskólum en ættu að gera ef miðað er við frammistöðu íslenskra unglinga í PISA-könnun ársins 2022.

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, segir töluverða einkunnaverðbólgu ríkja í grunnskólum og að afar lítið mark sé á þeim takandi.

Hann ræðir við Hólmfríði Maríu í Dagmálum um íslenskt menntakerfi, niðurstöður PISA-könnunarinnar og þær áskoranir sem íslenskir nemendur standa frammi fyrir.

Jón Pétur segir jafnræðis ekki gætt þegar kemur að einkunnagjöf …
Jón Pétur segir jafnræðis ekki gætt þegar kemur að einkunnagjöf til nemenda. mbl.is/Hari

Engin samræming milli skóla

Samkvæmt niðurstöðum PISA-könnunarinnar frá árinu 2022 búa um 40% nemenda í tíunda bekk ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi, 34% ekki yfir grunnhæfni í stærðfræðilæsi og 36% ekki yfir grunnhæfni í læsi á náttúruvísindi.

„Þegar þú ert að útskrifa nemendur þá endar stór hluti nemenda með einkunnina B,“ segir Jón Pétur og vekur athygli á því að þær niðurstöður rími ekki við frammistöðu nemenda í PISA-könnuninni.

 „Það er enginn sem fylgist með því og það er engin samræming á milli skóla og eftirlitið með einkunnagjöfinni er ekkert. Þess vegna er að mínu mati afar lítið mark takandi á einkunnum sem grunnskólarnir eru að gefa núna þegar nemendur útskrifast.“

Jafnræðis ekki gætt

Það veltur síðan á þessum einkunnum, sem ekkert samræmt eftirlit er með, hvaða nemendur komast inn í eftirsóttustu framhaldsskólana. Jón Pétur segir jafnræðis ekki gætt.

„Þetta er alveg risa mál í raun. Ekkert fullorðið fólk myndi sætta sig við þetta.“

Áskrifendur geta horft á þáttinn í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka