Fellir niður mál vegna banaslyss á Kjalarnesi

Frá vettvangi. Málið þótti ekki líklegt til sakfellingar og var …
Frá vettvangi. Málið þótti ekki líklegt til sakfellingar og var því fellt niður. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Héraðssaksóknari hefur fellt niður mál í tengslum við banaslys á Kjalarnesi sumarið 2020. Hjón á bifhjóli fórust í slysinu sem átti sér stað á nýlögðu og hálu malbiki sem stóðst ekki kröfur Vegagerðarinnar. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti héraðssaksóknara um niðurfellingu málsins, sem mbl.is hefur undir höndum. Auk hjónanna missti ökumaður bifhjóls, sem ekið var næst á eftir þeim, stjórn á bifhjóli sínu með þeim afleiðingum að hann hafnaði utan vegar og slasaðist nokkuð alvarlega. 

Þá slasaðist tvennt, ökumenn tveggja annarra bifhjóla, þegar þau þurftu að setja fæturna niður í götuna, sem kostaði mikil átök fyrir fót- og handleggi, í því skyni að ná jafnvægi og stöðva bifhjól sem þau óku en bæði náðu þau að nema staðar án þess að falla í götuna. 

Málið ekki líklegt til sakfellis 

Við rannsókn málsins fengu starfsmaður verkkaupa, verkstjóri slitlagningar, eftirlitsmaður og deildarstjóri framleiðsludeildar hjá framleiðanda malbiksins réttarstöðu sakbornings. 

Niðurstaða héraðssaksóknara byggir á rannsóknargögnum málsins og lögum um meðferð sakamála og segir í tilkynningu um niðurstöðuna að ekki hafi verið talið að þau gögn sem komu fram hafi verið nægileg eða líkleg til sakfellis. Því hafi málið verið fellt niður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert