Gæsluvarðhaldið framlengt aftur

Mennirnir hafa sætt gæsluvarðhaldi í margar vikur.
Mennirnir hafa sætt gæsluvarðhaldi í margar vikur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gæsluvarðhald yfir fjórum mönnum, sem handteknir voru í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu vegna skipulagðrar brotastarfsemi, hefur verið framlengt um fjórar vikur. Er þetta í annað skipti sem gæsluvarðhald yfir mönnunum er framlengt.

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, staðfestir að gæsluvarðhaldið hafi verið framlengt í dag í samtali við mbl.is.

Heimilað er að framlengja varðhald í sérstökum tilfellum en gæsluvarðhald yfir mönnunum var fyrst framlengt á dögunum 11.- 13. júní. Höfðu þeir þá sætt varðhaldi í hámarkstíma gæsluvarðhalds, sem er tólf vikur.

Rannsóknin var umfangsmikil

Málið snýr að skipulagðri brotastarfsemi, inn­flutn­ingi og sölu og dreif­ingu á fíkni­efn­um hér á landi, pen­ingaþvætti og vopna­laga­brot­um. Greint var frá því í síðustu viku að rannsókn á málinu hefði verið umfangsmikil og að á þriðja tug manna hafi verið handteknir í þágu hennar.

Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu lagði þá meðal annars hald á sex kíló af kókaíni og am­feta­míni, ýmsar gerðir vopna og um 40 millj­ón­ir króna í reiðufé.

Ákæra gefin út í dag

Að sögn Karls var ákæra gefin út í málinu í dag en vegna fjölda sakborninga hafi hún ekki verið birt. Hann geti því ekki upplýst um efnistök ákærunnar.

„Við getum ekki látið hana frá okkur fyrr en búið er að birta hana fyrir sakborningum,“ útskýrir hann og bætir við: „Það eru átján sakborningar í þessu máli og það þarf að birta þeim plaggið áður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert