Ómar R. Valdimarsson, lögmaður dóttur manns sem fórst í bifhjólaslysi á Kjalarnesi ásamt eiginkonu sinni fyrir fjórum árum, segir að niðurfelling héraðssaksóknara á máli í tengslum við banaslysið verði kærð til ríkissaksóknara, enda sé algjörlega óásættanlegt að enginn þurfi að sæta ábyrgð vegna þess sem gerðist.
Slysið varð á nýlögðu og hálu malbiki sem stóðst ekki kröfur Vegagerðarinnar. Við rannsókn málsins fengu starfsmaður verkkaupa, verkstjóri slitlagningar, eftirlitsmaður og deildarstjóri framleiðsludeildar hjá framleiðanda malbiksins réttarstöðu sakbornings.
Ekki var talið að þau gögn sem komu fram hafi verið nægileg eða líkleg til sakfellis. Því var málið fellt niður.
„Það er full ástæða til að skjóta málinu þangað [til ríkissaksóknara] og láta það embætti fara yfir ákvörðun héraðssaksóknara. Hvort það sé virkilega svo að fólk þurfi ekki að bera ábyrgð á því að hafa ekki valdið störfum sínum með þeim hætti að það látist tveir einstaklingar sem hefðu alls ekki þurft að deyja hefði rétt verið staðið að málunum,“ segir Ómar.
Einnig segir hann það dapurlegt að skjólstæðingur hans hafi eftir langa bið eftir niðurstöðu frétt af niðurfellingu málsins í gegnum tilkynningu á Island.is.
Ónærgætni hafi þarna gætt í kerfinu og eðlilegra hefði til dæmis verið að láta lögmann hennar vita, sem hefði getað komið boðunum áleiðis.