Hraði landriss við Svartsengi er meiri nú en fyrir eldgosið 29. maí og er á svipuðum hraða og það var í byrjun árs.
„Það er alveg við því að búast að þegar kvikuhólfið tæmist þá eigi kvikan auðveldara með flæða inn í það. Í kjölfarið verður hraðara landris til að byrja með en svo hægir á því þegar það færist nær því að fyllast,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Benedikt segir að innflæði kviku inn í kvikuhólfið sé ekkert að minnka og hafi haldist nokkuð stöðugt. Hann segir að kerfið sé að breyta sér.
„Við höfum verið að sjá að það þurfti hærri þröskuld til að koma af stað síðasta eldgosi og við verðum að búast við því að þetta haldi áfram að haga sér þannig og það taki lengri tíma að koma af stað næsta gosi,“ segir Benedikt.
Niðurstöður líkanreikninga gefa til kynna að miðað við núverandi innflæði verði kvikuhólfið undir Svartsengi komi í svipa stöðu og fyrir eldgosið 29. maí eftir þrjár til sex vikur.
„Við komum til með fara í startholurnar eftir þrjár vikur. Þá verður komið að þessum mörkum þar sem hefur gosið áður. Fyrir síðasta gos leið lengri tími á milli gosa og við getum alveg átt von á því að það líði enn lengri tími en þá.“
Benedikt segir ekkert sem bendi til annars en að gosið verði áfram á Sundhnúkagígaröðinni en gosið sem hófst 29. maí var það fimmta á gígaröðinni frá því í desember.
Sumir hafa haldið því fram að næsti atburður verði sá síðasti á þessu svæði. Spurður út í það segir Benedikt:
„Það er ekki að draga þannig úr innflæði að við eigum von á því, en eldstöðvar eru ólíkindatól. En miðað við hvernig þetta hefur verið að haga sér þá myndi ég ekki gera ráð fyrir því að þetta verði síðasti atburðurinn á Sundhnúkagígaröðinni.“