Fyrirtækið Kubbur ehf. frá Ísafirði tekur við stórum hluta sorphirðu hjá Kópavogsbæ af Íslenska gámafélaginu í ágúst. Samningurinn er til sex ára, með möguleika á framlengingu í eitt ár í senn, tvisvar sinnum. Bauð Kubbur um 1,8 milljarða í verkið en áætlun Kópavogs var upp á 2,3 milljarða.
Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ var opnað fyrir tilboð í mars sl. í hirðingu á úrgangi frá heimilum í Kópavogi úr tunnum, kerum og djúpgámum.
„Félagið Kubbur var stofnað árið 2006, við höfum verið eitt umfangsmesta fyrirtæki landsins í sorphirðu og úrgangsstjórnun síðan 2011. Kubbur á Ísafirði sinnir sorphirðu víða um land og nú hefur Kópavogur bæst við frá næsta mánuði,“ segir Unnar Hermannsson framkvæmdastjóri Kubbs en Kópavogur er ellefta sveitarfélagið og samningsaðili sem fyrirtækið mun starfa fyrir.
Hin eru Ísafjarðarbær, Bolungarvík, Fjarðabyggð, Ölfus, Vestmannaeyjar, Vesturbyggð, Tálknafjörður, Súðavík, Vestur-Skaftafellssýsla og Snæfellsbær.
„Við kaupum þrjá nýja og umhverfisvæna metan-sorpbíla áður en við tökum við Kópavogi og þurfum að bæta við okkur starfsfólki, rúmlega tíu manns,“ segir Unnar, en Kubbur er með rúmlega 40 starfsmenn um allt land.
Útboðshlutarnir í Kópavogi voru þrír. Í fyrsta hluta var almennur úrgangur og matarleifar úr tunnum og kerjum, í öðrum hluta var pappír og pappi og plast úr tunnum og kerjum og í þriðja hluta var tæming allra úrgangsflokka úr djúpgámum.
Kostnaðaráætlun Kópavogsbæjar fyrir útboðshluta eitt og tvö var alls um 2,3 milljarðar króna. Kubbur átti lægsta tilboð í þessa hluta, um 900 milljónir í hvorn, alls um 1,8 milljarða, eða 22% undir áætlun. Íslenska gámafélagið mun halda áfram að þjónusta djúpgáma en tilboð þeirra í þann hluta var um 110 milljónir króna, áætlun Kópavogs var um 170 milljónir.
Terra hf., Íslenska gámafélagið og Kubbur sendu inn tilboð í útboðshluta eitt, tvö og þrjú. Tækjaþjónustan sendi einungis inn tilboð í útboðshluta þrjú.