Ráðhús og heilsugæsla verði á Sementsreit

Til hægri má sjá sementstankana á Akranesi.
Til hægri má sjá sementstankana á Akranesi. mbl.is/Sigurður Bogi

Akraneskaupstaður og íslenska ríkið hafa undirritað viljayfirlýsingu um endurbyggingu á Mánabraut 20, svokölluðum Sementsreit á Akranesi. Stefnt er að því að þar rísi bygging fyrir ráðhús kaupstaðarins. Einnig er húsnæðið hugsað fyrir aðstöðu fyrir nýja heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi (HVE).

Fram kemur í viljayfirlýsingunni að þörf sé nýrri aðstöðu fyrir stofnanir ríkisins á Akranesi og að ríkið hafi áhuga að leigja aðstöðu í nýrri byggingu við Mánabraut 20.

Þar segir einnig að Akraneskaupstaður hafi hug á að vinna skipulagsbreytingu fyrir Sementsreit sem taki til lóðar við Mánabraut 20 auk svæðis við Faxabryggju þar sem áformað er að breyta hótelreit á fyllingu í íbúðasvæði.

Núverandi fasteign að Mánabraut 20 var áður í sameiginlegri eigu ríkisins og Akraneskaupstaðar en hefur nú verið afsalað að fullu til sveitarfélagsins. Komið er að miklu viðhaldi á eigninni og þarfnast hún gagngerrar endurnýjunar. Starfshópur verður settur um verkefnið sem skipaður verður fulltrúum frá Akraneskaupstað og Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna (FSRE). Viljayfirlýsingin er háð þeim fyrirvara að verkefnið teljist fýsilegt fyrir aðila hennar.

Vilja efla starfsemi HVE á Akranesi

„Bæjarstjórn Akraness er mjög áfram um að efla starfsemi HVE á Akranesi. HVE er stór vinnustaður í bænum og veitir mikla þjónustu og mikilvæga. Mikilvægi þess og gæði fyrir íbúa Akranes og nágrennis að eiga svo öfluga stofnun verður seint ofmetið. Með því opna fyrir að flytja heilsugæsluhlutann frá núverandi staðsetningu opnast möguleikar á að efla starfsemi göngudeildar, rannsóknar og almennar sjúkrahússtarfsemi til mikilla muna. Bæjarstjórn vill vera sterkur bakhjarl HVE á Akranesi og styðja við sókn og stækkun starfseminnar, segir í tilkynningu frá bæjarstjórn.

Þar segir einnig m.a.: „En fyrst og fremst lýsa þessi áform einbeittum vilja Akraneskaupstaðar efla miðbæ Akranes og stuðla að fallegri byggð á lóð gömlu Sementsverksmiðjunnar. Með kaupum á Mánabraut 20 er sleginn endapunktur og um leið og kaupin eru fyrsta skref á mest spennandi byggingarsvæði á suðvesturhorni Íslands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert