Mál manns sem lést í vinnustaðaslysi á byggingasvæði á Akranesi í júní er enn til rannsóknar. Lögregla staðfestir að maðurinn hafi verið að starfa við byggingu einingahúsa.
Maðurinn var á sextugsaldri og lést ellefu dögum eftir slysið á gjörgæsludeild Landsspítalans.
Í samtali við mbl.is segir Kristján Ingi Hjörvarsson, settur aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, að málið sé, líkt og öll vinnustaðarslys, til skoðunar hjá vinnueftirlitinu.
„Þeir eru náttúrulega að skoða allt þetta sem snýr að öryggi á vinnustöðum.“
Enn sé beðið eftir niðurstöðum úr rannsóknum til að loka málinu en Kristján segir engra stórtíðinda vænt enda hafi verið um slys að ræða.
Hann gæti ekki tjáð sig nánar um efnislega þætti rannsóknarinnar.