Sló 40 ára Íslandsmet og stefnir á Ólympíuleika

Andri eftir að hann sló Íslandsmet í Ármannshlaupinu fyrr í …
Andri eftir að hann sló Íslandsmet í Ármannshlaupinu fyrr í vikunni. Ljósmynd/Aðsend

Andri Már Óskarsson, 11 ára hlaupakappi, gerði sér lítið fyrir í Akureyrarhlaupinu í gær og sló 40 ára gamalt Íslandsmet í hálfmaraþoni í 12 ára aldursflokki um 8 mínútur og 40 sekúndur. Hann kom í mark á tímanum 1:42:22. 

„Þetta var fínt, eftir fyrsta hring var mikill vindur og mér fannst erfiðast við hlaupið vera endaspretturinn, þá var ég orðinn svolítið þreyttur,“ segir Andri í samtali við mbl.is. 

Íslandsmeistari í 10 km fyrr í vikunni

Andri varð einnig Íslandsmeistari í 10 kílómetra götuhlaupi í Ármannslaupinu fyrr í vikunni. 

Eftir hlaupið kom aftur á móti í ljós að það hafði verið 50 metrum of stutt og var árangurinn ekki skráður í afrekaskrá Frjálsíþróttasambands Íslands. Íslandsmeistaratitlar hlaupsins munu þó standa. 

Andri er nýlega byrjaður í langhlaupum og hefur stundað íþróttina í rúmt ár en hann æfir með Ungmennafélagi Selfoss. 

Með mikinn metnað

Spurður hvaðan áhugi hans á íþróttinni komi segist hann hafa áður verið í frjálsum íþróttum. Þá þá hafi hann fundið að langhlaup hafi átt sérstaklega vel við sig.

„Ég var stundum að hlaupa með vini mínum litla hringi á æfingum og þegar hann hætti fann ég að ég gat haldið áfram og farið lengra,“ segir Andri. Hann hefur mikinn metnað fyrir íþróttinni og hefur sett sér það markmið að komast einn daginn á Ólympíuleikana í 5 eða 10 kílómetra hlaupi. 

„Hann er uppáhalds hlauparinn minn“

Spurður hvort hann eigi sér einhverja fyrirmynd í íþróttinni kveðst hann líta mikið upp til Baldvins Þórs Magnússonar langhlaupara. 

„Hann er uppáhalds hlauparinn minn,“ segir Andri en Baldvin var krýndur langhlaupari ársins í fyrra. Þá er hann Íslandsmeistari í 1.500-, 3.000.- og 5.000 metra hlaupi og er í ólympíuhópi Íþróttasambands Íslands fyrir Ólympíuleikana í sumar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka