Stríður straumur að Dynjanda

Gríðarlegur fjöldi ferðamanna sótti Dynjanda heim í gær. Flestir komu …
Gríðarlegur fjöldi ferðamanna sótti Dynjanda heim í gær. Flestir komu þeir með rútum en skemmtiferðaskip setti einnig niður akkeri í voginum og þaðan var þeim siglt í land. mbl.is/Agnar

Mikill fjöldi ferðamanna gerði sér ferð að fossinum Dynjanda á Vestfjörðum í gær. Landvörður segir ferðalangana til lítilla vandræða.

Ferðamannavertíðin stendur yfir á Vestfjörðum. Að viku lokinni munu að minnsta kosti 18 skemmtiferðaskip hafa komið í Ísafjarðarhöfn.

Einir Pálsson, landvörður við Dynjanda, ræddi við blaðamenn mbl.is sem stöldruðu við fossinn á leið sinni frá Ísafirði til Reykjavíkur.

Aðspurður kveðst Einir ekki geta sett nákvæma tölu á það hversu margir ferðamenn hafi komið að Dynjanda yfir daginn en nefnir samt töluna tvö þúsund. Þeir voru að minnsta kosti margir.

Einir Pálsson landvörður stendur vaktina við Dynjanda í sumar.
Einir Pálsson landvörður stendur vaktina við Dynjanda í sumar. mbl.is/Agnar

Akkerið sett niður í voginum

„Þetta kemur samt í törnum. Núna eru tvö stór skemmtiferðaskip á Ísafirði. Þá koma allar þessar stóru rútur,“ segir Einir en tekur fram að fyrr um daginn, um kl. 10, hafi rútur fyllt bílastæðið gervallt. Sumum rútum hafi jafnvel þurft að leggja við vegkantinn.

Á meðan blaðamenn ræddu við Eini var skemmtiferðaskip National Geographic á akkeri úti á Dynjandisvogi. Þaðan voru ferðamenn ferjaðir í land með smærri bátum.

„Þessi minni skip koma oft hérna inn í voginn,“ segir landvörðurinn, sem kveðst þó þurfa að hafa lítil afskipti af skipunum.

Skip National Geographic setti niður akkeri í Dynjandisvogi. Þaðan voru …
Skip National Geographic setti niður akkeri í Dynjandisvogi. Þaðan voru ferðamenn ferjaðir með bátum upp á þurrt land. mbl.is/Agnar

Ferðamenn láta „skítakuldann“ ekki hafa áhrif á sig

Einir, sem er frá Hornafirði, vinnur nú annað sumarið sitt sem landvörður á Dynjanda. Hann myndi reyndar sjálfur ekki kalla árstíðina „sumar“.

„Sumarið? Það er nú ekki búið að vera mikið sumar. Það er búið rigna alla daga. Þetta er eiginlega með betri dögum. Þótt það sé skítkalt,“ segir landvörðurinn. Ekki var nema sjö stiga hiti við Dynjanda í gær en af og til má sjá sólina [gægjast] undan skýjahulunni.

En ferðamenn láta kuldann ekki bíta sig.

„Þeim er alveg sama. Þau voru löngu búin að ákveða að fara hring og stoppa einhvers staðar. Þau vaða bara í það. Ég hef ekki séð þá stoppa mikið út af veðrinu,“ segir Einir um ferðamennina.

Gjaldtaka hafin

Umhverfisstofnun hóf gjaldtöku á bílastæðinu í síðasta mánuði, að sögn Einis, sem tekur þó fram að enn sé verið að fínpússa verklagið í kringum gjaldtökuna.

„Þetta er bara nýlega komið. Við erum aðeins að slípa þetta til,“ segir hann.

„Við reynum að grípa fólk þegar það kemur. Benda þeim á að þetta sé komið á.“

Ferðamennirnir hafa ekki verið til vandræða

Hafa ferðamennirnir verið til einhverra vandræða?

„Nei. Það haga sér allir,“ svarar Einir. „Það er rosaleg undantekning að það þurfi að hafa afskipti af einhverjum.“

Slysin gerast samt. Og þegar svona margir eru farnir að heimsækja fossinn er óhjákvæmilegt að einhver slasi sig af og til, segir Einir.

„Það er nú bara eins og það er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert