Vorum blekktir og erum líka fórnarlamb

Gámurinn á Fiskislóð þar sem hann stóð áður en hann …
Gámurinn á Fiskislóð þar sem hann stóð áður en hann var fluttur á Hólmsheiði Ljósmynd/Almar Gunnarsson

„Við erum fórnarlamb í málinu eins og þessi eigandi gámsins,“ segir Kristmundur Einarsson, framkvæmdastjóri ET-flutninga, við mbl.is.

Gámur í eigu Almars Gunnarssonar, eiganda pípulagningarfyrirtækisins Landslagna ehf., var fluttur af einkalóð hans við Fiskislóð í Reykjavík af ET-flutningum yfir á Hólmsheiði án hans vitundar.

Almar segist hafa fundið gáminn á Hólmsheiði þar sem búið var að tæma hann en í honum voru hreinlætis- og pípulagningarvörur að andvirði tíu til fimmtán milljóna króna. Hann segir að ET-flutningar beri ábyrgð á flutningi gámsins þar sem hann hafi verið fluttur án staðfestngar frá honum.

Almar kveðst vera búinn að ræða við lögmenn og að lögmaður sé búinn að senda kröfu á ET-flutninga.

„Við erum flutningafyrirtæki og erum að þjónusta fyrirtæki og einstaklinga í flutningum á bæði gámum, vélum og fleiru. Í þessu tilviki vorum við blekktir til að flytja gám sem einhver annar á. Við getum hvergi í neinum opinberum kerfum athugað hver á þennan eða hinn gáminn og tökum bara viðskiptavininn trúanlegan sem hringir og biður um flutning,“ segir Kristmundur við mbl.is.

Almar sagði við mbl.is í gærkvöld að „einhver þjófur“ hafi hringt í ET-flutninga úr frelsisnúmeri og í kjölfarið hafi flutningafyrirtækið náð í gáminn og skutlað honum upp á Hólmsheiði án þess að tala við einn né neinn.

Ekkert sem vakti grunsemdir okkar

„Í þessum tilviki var ekkert sem vakti grunsemdir okkar um að eitthvað óeðlilegt væri í gangi. Við fluttum gáminn eftir þetta samtal og þær upplýsingar sem viðkomandi aðili gaf okkur. Hann var öllum staðháttum kunnugur og vísaði okkur á gáminn. Það var allt eðlilegt en þegar við fórum að svo skoða málið betur þá virðist hann algjörlega hafa blekkt okkur,“ segir Kristmundur.

Hann nefnir að ekki hafi tekist að hafa uppi á viðkomandi aðila. Hann segir að reynt hafi verið að hringja í símanúmerið sem hringt hafi verið úr en það náist ekki í það og virðist lokað.

Finnst þér ekki eitthvað hafa farið úrskeiðs varðandi ykkar verkferla í þessu máli?

„Það má vel vera. Það er lítið sem við getum gert en við förum auðvitað yfir okkar vinnuferla og munum skoða það innanhúss hjá okkur hvort þurfi að bæta þá.“

Kristmundur segir að ET-flutingar flytji hundruð eða þúsundir gáma á hverju ári fyrir fyrirtæki og einstaklinga og að þetta sé í fyrsta skipti í fjögurra ára rekstrarsögu fyrirtæksins sem mál af þessu tagi komi upp.

Erum flutningafyrirtæki en ekki þjófar

„Eigandi gámsins hefur haldið því fram við mig að við berum ábyrgðina og hefur hreinlega sakað okkur um þjófnað. ET er flutningafyrirtæki en ekki þjófar. Við vorum plataðir til að flytja þennan gám af einhverjum óprúttnum aðila. Ég sagði við eiganda gámsins að hann skyldi leita réttar síns eins og lög kveða á um,“ segir Kristmundur.

Hann bætir við að lögregla hafi verið kölluð til vegna málsins og líklega sé rannsókn hennar í gangi. Hann segist ekki hafa heyrt neitt frá lögmanni eiganda gámsins en ef það berist krafa þá verði tekið við henni eins og vera ber.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert