Göngumaðurinn fannst fyrir botni Birnudals

Þyrla landhelgisgæslunnar kom að leitinni
Þyrla landhelgisgæslunnar kom að leitinni Ljósmynd/Björgunarfélag Hornarfjarðar

Björgunaraðilar fundu göngumanninn sem leitað var að í gær fyrir botni Birnudals og var hann þegar látinn. Þetta kemur fram í færslu Björgunarfélags Hornafjarðar.

Björgunarfélag greindi fyrr í dag frá leitinni að manninum í Facebook-færslu á síðu félagsins.

Þar kemur fram að björgunarfélaginu hafi í gærmorgun borist tilkynning vegna einstaklings sem ekki hafði sést til í um það bil sólarhring og að við rannsókn lögreglu hafi verið talið líklegast að hann hafi ætlað að ganga krefjandi leið frá Kálfafellsstað upp á Birnusand.

Sleða- og gönguhópar leituðu mannsins

Í færslunni segir að þyrla Landhelgisgæslunnar hafi strax verið boðuð út til að koma að leitinni ásamt björgunarfélaginu.

Sleðahópur á vegum björgunarfélagsins lagði af stað frá Skálafellsjökli og skoðaði Miðsfelsegg og svæðið í nágrenni Birnudalstind.

Að því loknu gekk hópurinn á móti gönguhóp sem lagði af stað frá Kálfafellsstað á sama tíma.

Fram kemur að gönguleiðin sé krefjandi og að maðurinn hafi fundist látinn fyrir botni Birnudals um klukkan 15.30 í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert