Íhugar að sækja um starf forstöðumanns

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, horfir á mikilvægi uppbyggingu og þróunar …
Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, horfir á mikilvægi uppbyggingu og þróunar með því að færa starfsstöðvar á landsbyggðina. Nauðsynlegt sé að horfa á menntunar- og starfstækifæri einstaklinga sem eina heild. mbl.is/Hákon

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, íhugar að sækja um nýtt starf forstöðumanns í kjölfar breytinga sem fela í sér samlegð stofnana er heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Hún segist þó ekkert gefa nánar upp í bili.

Þetta segir Sigrún í samtali við blaðamann mbl.is.

Stofnanir sem heyra undir ráðuneytið verða níu í staðinn fyrir 13. Umhverfisstofnun mun skiptast upp í tvær einingar. Annars vegar einingu um náttúruverndarmál, lífríki og veiðistjórnun og hins vegar loftslagsmál, hringrásarhagkerfi, mengunarvarnir og annað sem snýr að orkumálum.

Tækifæri fyrir landsbyggðina

Breytingarnar koma ekki flatt upp á Sigrúnu því undirbúningurinn hafi staðið yfir lengi, en Umhverfisstofnun kom meðal annars að frumvörpum sem lúta að þeim.

Sigrún segir að gott utanumhald sé mikilvægt þegar um svo stórar breytingar ræðir enda ætli ráðherra að skipa stýrihóp til að styðja við breytingaferlið.

Þá nefnir hún mikilvægi uppbyggingar og þróunar sem skapast á landsbyggðinni þegar aðstaða forstöðumanna verður færð út fyrir höfuðborgarsvæðið. Það sé nauðsynlegt að horfa á menntunar- og atvinnutækifæri saman og að hugsa starfsævi einstaklinga sem eina heild.

Í sinni starfstíð segist Sigrún hafa reynt að stuðla að tækifærum í dreifbýli en Umhverfisstofnun opnaði til dæmis starfsstöð á Hvanneyri í febrúar. Hvert starf á landsbyggðinni skipti máli segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert