Líkin rak fram eftir öllu vori

Birgir Þ. Kjartansson, fyrrverandi félagsmálastjóri.
Birgir Þ. Kjartansson, fyrrverandi félagsmálastjóri. mbl.is/Eyþór

„Saga þessara frönsku sjómanna og ástvina þeirra sem biðu komu þeirra heima í Frakklandi snerti hjarta mitt. Mig langaði að taka þetta saman, eins og hægt er öllum þessum árum síðar," segir Birgir Þ. Kjartansson, sem hefur látið hanna minnismerki um 34 franska skútusjómenn sem fórust í mannskaðaveðri á Faxaflóa í mars 1870. Merkið verður afhjúpað í kirkjugarðinum á Staðarstað á Snæfellsnesi á miðvikudaginn en þar hvíla bein mannanna.

Undanfarin ár hefur Birgis grafist fyrir um þetta sorglega mál. Fyrstu fréttir voru uppörvandi á sínum tíma en tvö fiskiskip, St. Joseph og Puebla, rak upp nálægt Gömlueyri á Mýrum og varð mannbjörg, 45 manns voru samtals á skipunum og björguðust þeir allir. En svo fór lík að reka á land í Staðarsveit, eitt af öðru. Þótti mönnum einsýnt að alla vega tvö skip hefðu farist en lengi stóð á því að menn áttuðu sig á því hve mörg skip fórust við ofanverðan Flóann í þessu mannskaðaveðri. 

Eiginkonur og aðrir ástvinir sjómannanna biðu eftir þeim við heimkomuna …
Eiginkonur og aðrir ástvinir sjómannanna biðu eftir þeim við heimkomuna til Paimpol og urðu þá fagnaðarfundir. Ekki sneru allir aftur.


„Lík franskra sjómanna var að reka fram eftir öllu vori,“ segir Birgir. Hann segir langafa sinn, Kjartan Þorkelsson organista, hafa smíðað kynstrin öll af líkkistum, raunar svo margar að sveitin varð uppiskroppa með timbur. „Þar á meðal smíðaði hann líkkistur sem aðeins innihéldu líkamsleifar.“

Allt að 14 skútur fórust

Mennirnir voru jarðsettir vestast í gamla kirkjugarðinum á Staðarstað. Þar er hóll sem kallaður er franski grafreiturinn. Langalangafi Birgis, séra Þorkell Eyjólfsson, var þá á Staðarstað en orðinn veikur og hættur að þjóna, þannig að nývígður prestur, séra Sveinn Níelsson, annaðist athöfnina, bæði að lúterskum og kaþólskum sið, á íslensku og latínu.   

Að sögn Birgis er ekki með vissu vitað hversu margar skútur fórust í þessu mannskaðaveðri en talið er að þær hafi alla vega verið sex og jafnvel allt að 14. „Þegar franskt herskip kom um sumarið, til að smala frönskum skipum hér við land í fransk-prússneska stríðið, sem þá var hafið, vantaði tuttugu skip. Þau hafa þó varla öll farist í þetta sinn. En ljóst er að sjómennirnir sem drukknuðu þennan dag eru yfir hundrað og ansi margir þeirra hvíla því í votri gröf.“ 

Nánar er fjallað um þennan mikla skipskaða og rætt við Birgi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  


 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert