„Það er engin verðbólga hérna“

Eyþór Jóvinsson selur bækur enn á kílóverði. Fyrir þúsund kall …
Eyþór Jóvinsson selur bækur enn á kílóverði. Fyrir þúsund kall færðu kíló af orðum. mbl.is/Agnar

Sum orð vega meira en önnur. í Gömlu bókabúðinni á Flateyri eru þau einmitt seld eftir vigt. Verslunin er rúmlega 100 ára og er nú orðinn vinsæll áfangastaður ferðamannsins, sem hefur í auknum mæli sótt Vestfirðina heim undanfarin ár.

Þegar blaðamenn mbl.is ber að garði hefur lítil rúta lagt fyrir utan verslunina og út streymir lítill hópur þýskra ferðamana, um átta manns sem ganga allir inn í búðina. 

Eyþór Jóvinsson tekur á móti viðskiptavinunum en hann er verslunarstjóri gömlu bókabúðarinnar, sem nefnist í raun Verslun Bræðurnir Eyjólfsson. Langafi hans opnaði verslunina fyrst og tilheyrir Eyþór fjórðu kynslóð eigenda.

Veltu 65 krónum þann 4. júlí

Langafi Eyþórs, Jón Eyþórsson, var bóndasonur á Kirkjubóli í Valþjófsdal sem flutti síðan til Flateyjar til að stofna verslun.

„Langamma [Guðrún Arn­bjarn­ar­dótt­ir] kemur hingað sem farandkennari. Þau kynnast og fella huga saman og flytja hingað og fara í þennan rekstur. Búa hérna í þessu húsi frá 1915 og íbúðin þeirra hefur varðveist í alveg óbreyttri mynd, sem er örugglega elsta varðveitta heimili á Íslandi í dag,“ segir Eyþór.

Íbúð hjónanna hefur staðið nánast ósnert í um 80 ár.
Íbúð hjónanna hefur staðið nánast ósnert í um 80 ár. mbl.is/Agnar
Gamla saumavélin er enn á sínum stað í íbúð Jóns …
Gamla saumavélin er enn á sínum stað í íbúð Jóns og Guðrúnar. mbl.is/Agnar

Í íbúð hjónanna, sem er í sama húsnæði, er enn sama innrétting og fyrir 100 árum, að sögn Eyþórs. Þar má finna bækurnar sem þau lásu, bollastellin sem þau drukku úr og hinar ýmsu fjölskyldumyndir. „Allt á sínum stað,“ segir Eyþór.

„Svo eigum við allt bókhaldið eins og það leggur sig,“ segir kaupmaðurinn og bendir á hillu sem stendur fyrir aftan blaðamann. Við blasa um fimmtán gamlar bókhaldsblokkir.

Gamla bókabúðin á Flateyri heldur enn utan um rúmlega 100 …
Gamla bókabúðin á Flateyri heldur enn utan um rúmlega 100 ára bókhald. mbl.is/Agnar

Í bókhaldinu frá 4. júlí 1924, einmitt hundrað árum áður en þetta viðtal er tekið, má sjá að verslunin seldi fyrir 65 krónur og 26 aura yfir daginn. Veltan er þó allt önnur í dag.

Í bókhaldinu frá 4. júlí 1924, einmitt hundrað árum áður …
Í bókhaldinu frá 4. júlí 1924, einmitt hundrað árum áður en þetta viðtal var tekið, má sjá að verslunin seldi fyrir 65 krónur og 26 aura yfir daginn. Veltan er þó allt önnur í dag. mbl.is/Agnar

Úr nýlenduverslun í netverslun

Í raun er verslunin bæði 110 ára og 106 ára.

„Verslunin byrjar 1914 – elstu bækurnar sem við erum með frá 1914 – og þá var Jens, bróðir langafa míns, sem átti verslunina. En 30. desember 1918 tekur verslunin upp þetta nafn. Verslunin Bræðurnir Eyjólfsson. Þannig að það er hálfpartinn afmælisdagurinn okkar,“ segir hann og bendir á svokallað tímahylki frá 2018 og verður opnað að nýju 2118, þegar búðinn er orðin 200 ára.

Verslunin byrjaði sem nýlenduvöruverslun en hóf bóksölu um 1920.

„Svona hægt og rólega breyttist þetta í bókabúð. Við seldum samt alltaf meira en bara bækur eins og sælgæti, sígarettur og mikið af vestfirskum vörum,“ segir Eyþór og bendir í átt að hillum sér á hægri hönd þar sem sjá má ýmislegt vestfirskt sælgæti, sultur og salt.

Fyrir nokkrum árum opnaði síðan netverslunin gamla.is.

Gamla bókabúðin á Flateyri hefur verið starftæk í rúmlega 100 …
Gamla bókabúðin á Flateyri hefur verið starftæk í rúmlega 100 ár. mbl.is/Agnar

Viðskiptavinir aðeins breyst

Viðskiptavinirnir tilheyra að miklu leyti öðrum hópun en þeir gerðu fyrir hundrað árum. Í dag eru þeir að mestu ferðamenn, eða alla veganna á sumrin.

Ferðamannavertíðin stendur yfir á Vestfjörðum og allt að 18 skemmtiferðaskip komu til Ísafjarðar í vikunni. Verslunarstjórinn segist finna vel fyrir áhrifum skemmtiferðaskipanna.

„Við fáum gríðarlega marga ferðamenn á skemmtiferðaskipum. Þeir eru náttúrulega gríðarleg búbót fyrir lítinn rekstur sem þennan á Flateyri. Skipta okkur bara gríðarlega miklu máli, skilja mikinn pening eftir hjá okkur,“ segir Eyþór.

Verslunin hefur greinilega tekið einhverjum breytingum, þó ekki miklum, til að koma til móts við þennan breytta hóp viðskiptavina. Sem dæmi má nefna að notaðar bækur hafa að einhverju leyti vikið fyrir ónotuðum bókum á erlendum tungumálum.

Sem fyrr segir var lítill hópur þýskra ferðamanna inni í búðinni þegar blaðamenn kíktu við. Einn þjóðverji sýndi bókinni „Isländische Vogel führer“ mikinn áhuga, en Íslendingar þekkja bókina sem Íslenskan fuglavísi.

Hvað kostar grammið?

Enn er samt aragrúi af notuðum bókum til sölu, og eru þær seldar eftir vigt.

„Við notum gömlu góðu vigtina sem var notuð til að vigta hveiti salt og sykur fyrir hundrað árum,“ segir hann og bendir á svarta stálvog á borðinu.

En hvað kostar þá kíló af bókum?

„Þúsund krónur. Hefur verið óbreytt verð í tuttugu ár. Það er engin verðbólga hérna.“

Leikritasafn Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi kostaði þess vegna 620 krónur, enda svo mörg grömm, og bókin Saga veðurstofunnar kostaði 1.380 krónur.

Leikritasafn Davíðs Stefánssonar vegur 620 gröm, og kostar því það …
Leikritasafn Davíðs Stefánssonar vegur 620 gröm, og kostar því það sama í krónum.. mbl.is/Agnar

Nýtt útibú á 100 ára fresti

Í fyrra opnaði verslunin útibú í Hjartagarðinum í Reykjavík. Var það gert vegna þess að flestar vörur sem keyptar voru í gegnum vefverslun bókabúðarinnar voru sendar til Reykjavíkur, að sögn Eyþórs.

„Við tókum eftir því að vörurnar sem við flytjum inn fást hvergi annars staðar á Ísland. Og nánast allar pantanirnar nást ekki til Reykjavíkur. Þannig að við ákváðum bara að mæta með verslun þangað og mæta markaðnum þar sem hann er,“ segir Eyþór.

„Við höfum starfað í hundrað og tíu ár. Nú eru komnar tvær verslanir og við stefnum á að opna nýtt útibú á 100 ára fresti,“ segir bóksalinn og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert