„Að gefast upp er lúxus sem ég hef ekki“

Lokaritgerð Doniku bar yfirskriftina: „Mannúðarkrísa á stríðstímum: Skoðun á sambandi …
Lokaritgerð Doniku bar yfirskriftina: „Mannúðarkrísa á stríðstímum: Skoðun á sambandi alþjóðalaga og fullveldis, með hliðsjón af átökunum í Ísrael og Palestínu.“ Ljósmynd/Aðsend

„Fólk misskilur oft og heldur að ég hafi komið hingað sem flóttamaður, en ég kom ekki hingað sem flóttamaður,“ segir Donika Kolica sem var tíu ára gömul þegar hún flutti til Íslands frá Kósovó árið 2007 með móður sinni og bróður. 

Sautján árum síðar hefur hún útskrifast frá Háskólanum í Reykjavík með meistaragráðu í lögfræði. Sú fyrsta af kósovósk-albönskum uppruna til að ljúka slíkum áfanga á Íslandi.

Í samtali við mbl.is fer Donika yfir lífsferilinn og lýsir mikilvægi þess að skila einhverju til baka til samfélagsins, að standa með reisn og elta drauma sína þó svo á móti blási.

Með svör á reiðum höndum en skorti orðaforðann

Donika og fjölskylda hennar bjuggu í Kósovó á meðan Kósovóstríðið geisaði sem stóð yfir frá árinu 1995 til 1999 og lauk þegar Donika var tveggja ára. Föðursystir hennar hafði þó fengið hæli á Íslandi árið 1999 sem flóttamaður frá stríðinu.

Faðir Doniku kemur svo til landsins árið 2005 með atvinnuleyfi í leit að betri tækifærum og svo tveimur árum seinna sameinast fjölskyldan og Donika kemur með bróður sínum, systur sinni og móður til landsins.

Donika er fyrst þeirra af kósovósk-albönskum uppruna til að útskrifast …
Donika er fyrst þeirra af kósovósk-albönskum uppruna til að útskrifast með meistaragráðu í lögfræði hér á landi. Ljósmynd/Aðsend

Donika er tíu ára gömul þegar hún kemur til landsins og byrjar í fimmta bekk í Hólabrekkuskóla. Íslenskan var henni framandi og við tóku nýjar áskoranir í nýju landi: „Þetta var ekki auðvelt, ég kunni auðvitað ekki tungumálið, ég skildi engan og kunni ekki einu sinni ensku,“ segir hún og bendir á að í Kósovó læri börn spænsku sem annað tungumál.

„Það var mjög óþægilegt að vita ekki hvað fólk var að segja í kringum mig, en ég tók alveg eftir því að fólk var að tala um mig og gat ekki svarað. Ég vissi þó alveg hvað ég ætlaði að segja, en ég hafði ekki orðaforðann.“

„Við verðum líka að gefa til baka“

Donika talar í dag reiprennandi íslensku og í samtali hennar við blaðamann var engan veginn að heyra að hún hefði lært tungumálið fyrst tíu ára gömul. Hún lýsir því hvernig að finna fyrir máttleysinu í því að geta ekki tjáð sig almennilega hafi verið henni mikill hvati til að læra tungumálið:

„Það var þetta sem lét mig vilja læra tungumálið og snýst þetta líka mikið um uppeldið. Foreldrar mínir sögðu alltaf við mig: „Við búum hér núna, það minnsta sem við getum gert er að læra tungumálið og taka þátt í samfélaginu.“ Við verðum líka að gefa til baka, við komum hingað fyrir betra líf, en þetta er landið þitt núna og þú verður líka að gefa til baka.“

Þetta hugarfar skilaði Doniku strax góðum árangri og eftir einungis sjö mánuði á Íslandi hlaut hún íslenskuverðlaun sem Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, afhenti henni.

Hreimur kalli á breytt viðmót

Foreldrar Doniku lögðu íslenskunámið einnig fyrir sig og náðu góðum tökum á tungumálinu, þó svo þeim hafi ekki endilega tekist að losa sig við hreiminn: „Ég sé báðar hliðarnar. Fólk talar við mig sem Íslending af því ég tala lýtalausa íslensku,“ segir hún og bætir við:
„Svo er ég með móður minni sem talar bjagaða íslensku og ef hún byrjar að tala þá mætir henni aðeins öðruvísi framkoma.“

Donika og faðir hennar við útskrift hennar úr Menntaskólanum í …
Donika og faðir hennar við útskrift hennar úr Menntaskólanum í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Augu hennar eru opnari en annarra fyrir þessari breyttu framkomu. Hún nefnir í því samhengi upphafsárin í Menntaskólanum í Reykjavík, þar sem hún þurfti að leggja tvöfalt á sig miðað við aðra til þess að komast í gegnum alræmd stafsetningarpróf skólans, þótt hún hafi talað ágætisíslensku á þeim tíma.

Eitt sinn spurði hún kennara um aðstoð í tíma þar sem sagnbeygingar voru að vefjast fyrir henni og kveður hún hann hafa sagt við sig að ekki væri skrítið að hún skildi þetta ekki, enda útlendingur og fékk enga frekari aðstoð við að skilja beygingarnar.

Á endanum tókst henni að útskrifast úr MR og segir að þrátt fyrir meistaragráðu í lögfræði standi áfanginn að útskrifast úr MR einhvern veginn upp úr.

Rakst á vegg eftir föðurmissi

Árið 2017, strax eftir menntaskóla, hóf Donika laganám við Háskólann í Reykjavík og klárar haustönnina, en í janúar 2018 missir hún föður sinn:

„Ég ætlaði að þrauka áfram og halda áfram og hef alltaf reynt það. Það hafa auðvitað komið upp veikindi í fjölskyldunni og maður hefur misst ættingja, en einhvern veginn þraukaði maður alltaf áfram og komst í gegnum prófin,“ segir hún, en ekki fór sem skyldi og að lokum rakst hún á vegg.

„Þetta var auðvitað eitthvað allt annað, en maður var búinn að upplifa.“
Það fór sem fór og Donika tók sér pásu frá námi, en ákveðin að halda náminu áfram sem hún gerði árið 2019, rétt áður en heimsfaraldurinn skall á.

Röð áfalla

„Ég kem virkilega illa út úr covid og enda á spítala í átta daga,“ segir hún og bendir á að hún hafi á tímabili verið yngsta manneskjan á spítalanum vegna kórónuveirunnar.
„Ég hafði aldrei reykt, en enda þarna á spítalanum og missti tíu kíló á átta dögum og kom virkilega illa út úr þessu á sama tíma og ég er í lokaprófum.“

Hún kveðst hafa ætlað sér að klára lokaprófin þrátt fyrir veikindin, en að læknarnir hafi einfaldlega hlegið að henni og bent henni á að hún kæmist ekki einu sinni óstudd á klósettið. Við tók endurhæfing á Reykjalundi í sex vikur.

Donika náði að lokum bata og gat tekið prófin og þakkar hún viðleitni HR sem gaf henni kost á að taka prófin þegar hún væri búin að jafna sig. Hún útskrifaðist með grunnprófsgráðu árið 2021.

Donika og faðir hennar.
Donika og faðir hennar. Ljósmynd/Aðsend

Í kjölfarið ákveður hún að taka sér pásu í eina önn áður en hún færi í meistaranám, en í pásunni lendir hún í bílslysi: „Ég er á leiðinni í sumarbústað með vinkonum mínum að fagna útskriftinni, þegar vörubíll keyrir á okkur og ég er bílstjóri.“

Sem betur fer komu allir heilir frá slysinu, burtséð frá bílnum. Á sama tíma greindist hún með taugagalla og bakvandamál, en þá varð henni ljóst að pásan sem átti að vara önn myndi vara ár.

„Ég ætlaði samt að klára þetta.“

Stuttu eftir að Donika hóf meistaranámið greindist móðir hennar með MS: „Þannig að þá þurftum við að sinna því og það hafði mikil áhrif á fjölskylduna og sérstaklega eftir að pabbi minn lést er ég orðin elst í systkinahópnum.“

Þannig lýsir hún hvernig hún hefur þurft að hlúa að móður sinni og fylgdi henni meðal annars í aðgerð til Þýskalands samhliða náminu:

„Fólk vissi þó ekkert af þessu, það sást ekkert á mér.“

„Að gefast upp er lúxus sem ég hef ekki.“

Donika kveðst alltaf hafa unnið með námi og nefnir í því samhengi að meðfram laganáminu hafi hún unnið við heimahjúkrun, sem laganemi hjá lögmannsstofunni Rétti og sem túlkur fyrir dómstóla og lögreglu.

„Það var ekkert annað í boði ég þurfti að hlúa að fjölskyldunni og ég þurfti að vinna samhliða námi. Þannig er lífið, hlutir gerast, en það er hvernig fólk tekst á við það. Ég horfði á það þannig að allt gerist af ástæðu, en öll vinna skilar sér.“

Þótt hún viðurkenni að hún hafi eitt sinn séð eftir því að hafa tekið pásur frá náminu, kveðst hún þakklát fyrir þær í dag: „Það er mjög mikilvægt að hugsa um sjálfan sig og heilsuna. Ég get ekki hjálpað neinum ef ég er ekki sjálf í lagi.“

Spurð út í uppruna drifkraftsins sem heldur henni gangandi segist hún ekki vita með vissu, en að mögulega hafi það með upprunann að gera:

„Við upplifum stríð úti og flytjum til Mars, því Ísland var eins og Mars fyrir okkur. Byrjum upp á nýtt, þurfum að læra upp á nýtt,“ segir hún og deilir með blaðamanni setningu sem hún segir við nákomna þegar þeir undrast þrautseigju hennar:

„Að gefast upp er lúxus sem ég hef ekki.“

Donika og fjölskylda við útskrift hennar.
Donika og fjölskylda við útskrift hennar. Ljósmynd/Aðsend

Geti ekki haldið á lofti fordómum

Viðtalinu víkur að viðmóti Íslendinga gagnvart útlendingum á Íslandi. Eins og áður hefur komið fram tekur Donika eftir breyttu viðmóti gagnvart móður sem talar með hreim, hún segist þó ekki reiðast þegar slíkt kemur fyrir og viðurkennir að margt geti spilað inn í:

„Ég verð aldrei brjáluð yfir þessu, en í staðinn vil ég sýna fólki að um leið og fólk talar við mig og kynnist mér, þá getur það ekki haldið á lofti einhverjum fordómafullum skoðunum. Ég er eins og allir hinir, ég er alveg jafn mikill Íslendingur,“ segir hún og heldur áfram:

„Mig langar til að sýna fólki að útlendingar eru ekki hérna til að vinna ekki eða taka og sýna fram á vanþakklæti. Allir í minni fjölskyldu eru menntað fólk og nú er ég fyrsti lögfræðingurinn á Íslandi af kósovósk-albönskum uppruna.“

„Mér þykir voða leitt að fólk hafi þessar skoðanir, af því ef fólk gefur sér tíma til að kynnast okkur aðeins meira kemur í ljós að við erum bara eins og allir hinir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert