„Ég gæti ekki lifað með sjálfum mér“

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, segir óásættanlegt að 200 milljörðum sé varið í skólakerfið á hverju ári og að niðurstaðan sé ekki betri en raun ber vitni.

Nemendur búi að mismiklum stuðningi heima fyrir og eiga skólar að sjá til þess að börn fái jöfn tækifæri, óháð fjárhags- og félagslegri stöðu fjölskyldunnar. 

„Það er ekki skylda að vera neins staðar held ég nema þú ert skyldugur til að vera í fangelsi og grunnskóla,“ segir Jón Pétur í Dagmálum þar sem íslenska menntakerfið var til umræðu.

Áskrifendur geta horft á þáttinn í heild sinni hér

Sveitarfélögin beri ábyrgð

Niðurstöður PISA-könnunar ársins 2022 voru kunngjörðar í desember. Mældist árangur íslenskra nemenda undir meðaltali Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í stærðfræðilæsi, læsi á náttúruvísindi og lesskilningi.

En hvar liggur ábyrgðin þegar um 40% íslenskra nemenda býr ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi við útskrift úr grunnskóla?

„Ég myndi segja sveitarfélögin. Þau eru ekki viljug til að axla þessa ábyrgð. Það er enginn sem hefur sagt: „Heyrðu þetta gerðist á minni vakt, ég ætla að axla ábyrgð með einhverjum hætti.“ Ég hef ekki heyrt einn einasta sveitarstjórnarmann, pólitíkus eða embættismann ræða það þannig. Samt sem áður liggja grunnskólarnir hjá þeim,“ segir Jón Pétur og heldur áfram:

„Og það að þetta sé niðurstaðan eftir tíu ára skyldunám. Ég gæti ekki lifað með sjálfum mér að breyta ekki um stefnu eða taka þetta til alvarlegrar umræðu.“

Nemendur fá mismikinn stuðning frá foreldrum heima.
Nemendur fá mismikinn stuðning frá foreldrum heima. Ljósmynd/Colourbox

Sveitarfélögin bendi á foreldra

Jón Pétur vekur athygli á því að börn og unglingar búi að ólíkum stuðningi heima fyrir og að grunnskólar eigi að virka sem eins konar jöfnunartæki. Þannig sé ólíklegra að nemendur úr fjölskyldum sem standi höllum fæti félagslega og fjárhagslega fái aðstoð utan skólatíma. 

Ekki sé hægt að kenna heimilum um slakan árangur, skólar þurfi einfaldlega að gera betur.

„Mér hefur þótt sveitarfélögin benda á foreldra, að foreldrar verði að sinna börnunum betur, að passa að þau séu ekki í símanum og passa að þau séu ekki í leikjum bara endalaust. Á móti segi ég að eini staðurinn sem að við skyldum nemendurna er grunnskólinn,“ segir hann.

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla.
Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla. Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Þyrftu varla að vera í skóla

„Við fáum [nemendur] inn í nokkra klukkutíma á dag í 37 vikur á hverju ári og okkur á að takast að gera miklu betur heldur en við erum að gera núna. Þetta er í raun algjörlega óásættanlegt að eyða 200 milljörðum – 200 milljörðum á ári í þetta og þetta er niðurstaðan.“

Hann bendir á að einnig séu nemendur sem fá það mikinn stuðning heima að þeir þyrftu varla að vera í skóla.

„Auðvitað er það þannig að því betur sem heimili hlúa að börnunum sínum því líklegri eru þau til að ná árangri. Það eru nemendur hérna úti sem búa við þannig aðstæður að það er stanslaust verið að lesa fyrir þau. Það er stanslaust verið að halda utan um þau. Það er stanslaust verið að tala við þau um fréttir og dægurmál með flóknum orðaforða. Þessir nemendur þyrftu varla að vera í skóla. Þeir myndu ná PISA-prófinu bara einn tveir og þrír. En þessir nemendur eru í miklum minnihluta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert