María Hjörvar
Sævar Geir Sigurjónsson er einn þeirra sem hafa nýlega fengið símtal frá íslensku símanúmeri þar sem svikahrappur segist vera frá Microsoft og tilkynnir að búið sé að brjótast inn í tölvu viðkomandi.
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hafa fjarskiptafyrirtækinu Símanum borist tilkynningar um svikahrappa sem þykjast hringja úr íslenskum símanúmerum, og oft láta þeir sem svo að þeir hringi frá Microsoft.
Í samtali við mbl.is lýsir Sævar atburðarásinni.
Hann segir að einn morguninn fyrir stuttu síðan hafi verið hringt í sig um áttaleytið og hann beðinn um að tala helst ensku.
Næst sagðist konan á línunni vera að hringja frá öryggismiðstöð Microsoft og að hún hefði rökstuddan grun um að búið væri að brjótast inn í tölvu hans og að allir reikningar hans væru í uppnámi.
Sævar segir það hafi tekið sig um 15 sekúndur að átta sig á svindlinu, enda hringi Microsoft aldrei í viðskiptavini sína. Hann hafi í kjölfarið sagt konunni á línunni frá uppgötvun sinni og skellt á.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sævar lendir í því að reynt sé að svindla á honum. Hann segir sig og sína nánustu oft hafa lent í því að fá tölvupósta með hlekkjum eða símtöl frá erlendum símanúmerum.
Þó er þetta í fyrsta sinn sem Sævar fær svikula símhringingu frá íslensku símanúmeri.
Hann kveðst ekki viss um hvort konan sem hringdi í hann hafi þóst vera með íslenskt símanúmer eða hvort hún sé í rauninni búsett á Íslandi.
„Hver segir að þessi aðili sé ekki kominn til Íslands?“