Gætu séð allt sem er í tölvunni

Guðmundur segir fólki að hafa varann á.
Guðmundur segir fólki að hafa varann á. AFP

Fjarskiptafyrirtækinu Símanum hafa að undanförnu borist tilkynningar um svikahrappa sem þykjast hringja úr íslenskum símanúmerum. Þeir þykjast oft hringja frá Microsoft.

„Mesta hættan er ef fólk hefur náð í hugbúnað því þá eru opnaðar dyr fyrir þessa óprúttnu aðila til að hafa aðgang að tölvu viðkomandi,“ segir Guðmundur Jóhannsson samskiptastjóri Símans í samtali við mbl.is.

Guðmundur segir Símann ekkert geta gert fyrir þá sem lenda í þessu, eins og að loka á símanúmer. Starfsfólk Símans geti þó ráðlagt fólki hvað beri að varast.

Meðal annars segir Guðmundur að ekki sé alltaf hægt að treysta símanúmerabirtingu. Þá hringi stór fyrirtæki á borð við Microsoft, Facebook og Apple ekki í einstaklinga.

Enginn skaði skeður með því að svara símanum

Hann bendir fólki einnig á að enginn skaði sé skeður þó fólk svari þessum símtölum eða eigi í samskiptum við svikahrappana. Það geti einungis valdið tjóni ef fólk fari eftir óskum þeirra, eins og að sækja hugbúnað eða deila viðkvæmum upplýsingum. 

Guðmundur segir mesta tjónið verða ef fólk fer að hlaða niður hugbúnaði.

„Fræðilega séð gætu þessir óprúttnu aðilar fylgst með og séð allt sem er gert í tölvunni og þar með gripið lykilorð fólks, kortaupplýsingar og alls konar viðkvæmar upplýsingar,“ segir Guðmundur.

Ekki er þetta í fyrsta sinn sem svikahrappar þykjast hringja úr íslenskum símanúmerum að sögn Guðmundar en hann segir netsvikin koma í bylgjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert