Ísland á toppnum á HM

Íslenska liðið í viðureigninni gegn Kanada í gær.
Íslenska liðið í viðureigninni gegn Kanada í gær. Ljósmynd/Skáksambandið.

Lið Íslands er á toppnum á HM landsliða í skák 50 ára og eldri, eftir 4-0 stórsigur á Kanadamönnum í sjöttu umferð gær. Mótið fer fram 2.-11. júlí í Kraká í Póllandi.

Stórmeistararnir Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Margeir Pétursson og Þröstur Þórhallsson unnu allir í gær.  Jón L. Árnason hvíldi. Þessir fimm kappar skipa sveit Íslands á mótinu en fjórir tefla í einu.

Þegar sex umferðum af níu er lokið eru Íslendingar efstir með 11 stig. Veitt eru tvö stig fyrir sigur en eitt fyrir jafntefli. Ítalir og Bandaríkjamenn koma næstir með 10 stig og Englendingar fjórðu með 9 stig. Baráttan er alfarið á milli þessara liða. Íslendingar hafa bæði mætt Ítölum og Englendingum.

Frídagur er í dag en Íslendingar mæta Bandaríkjamönnum á morgun í 7. umferð  í viðureign sem hreinlega getur ráðið úrslitum. Sigur eða jafntefli 2-2 eru mjög góð fyrir Íslendinga en tap þýðir að Bandaríkjamenn fara upp fyrir okkur Íslendinga. Mótinu lýkur á fimmtudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert