Minna traust eftir að Bjarni tók við

Aðeins 11% sögðust treysta ríkisstjórninni betur eftir að Bjarni tók …
Aðeins 11% sögðust treysta ríkisstjórninni betur eftir að Bjarni tók við. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þjóðin treystir ríkisstjórninni verr eftir að Bjarni Benediktsson tók við sem forsætisráðherra, ef marka má nýja skoðanakönnun Maskínu. Landsmenn eru ósammála um hvort ríkisstjórnin nái að halda út kjörtímabilið.

Í könnun Maskínu kennir ýmissa grasa. Þar kemur fram að kjósendur Framsóknarflokksins séu ánægðastir með frammistöðu flokksins í ríkisstjórninni, kjósendur Vinstri grænna séu ósáttastir með sitt fólk en kjósendur Miðflokksins ósáttastir við Sjálfstæðisflokkinn.

72% svarenda í könnuninni segjast treysta ríkisstjórninni verr eftir að Bjarni tók við sem forsætisráðherra og aðeins 11% treysta henni betur. 57,4% treysta henni „miklu verr“ og 15% „aðeins verr“.

Úr könnun Maskínu.
Úr könnun Maskínu. Skjáskot/Maskín

Ríkisstjórnin gert lítið til að lækka vexti

Aðeins 5% svarenda telja að ríkisstjórnin hafi gert mikið til að lækka vexti og verðbólgu á Íslandi en 81% segja að hún hafi gert lítið. 55,4% sögðu að hún hefði gert „mjög lítið“ og 25% sögðu ríkisstjórnina hafa gert „fremur lítið“.

Ólíklegt er að ríkisstjórnin sitji út núverandi kjörtímabil að mati 40% svarenda. Aftur á móti þykir 37% svarenda líklegt að ríkistjórnin haldi út kjörtímabilið. 

Miðflokksmenn ósáttir við Sjálfstæðisflokkinn

Fleirum þykir ríkisstjórnarflokkarnir takast illa að koma sínum málefnum til framkvæmda. Allir þykja þeir standa sig verr nú heldur en í desember 2022. 

57% svarenda segja að Vinstri grænum hafi tekist illa að koma sínum málefnum á framfæri en 9% þykir flokkurinn standa sig vel. Þar af eru kjósendur Vinstri grænna ósáttastir.

32% svarenda sögðu Framsóknarflokknum takast illa að koma sínum málefnum til framkvæmda og 9% sögðu honum takast það vel. Þar eru kjósendur flokksins þó sáttastir við frammistöðu flokksins.

Þá sögðu 34% svarenda að Sjálfstæðisflokknum gengi illa að koma sínum málefnum til framkvæmda en 27%. Þar eru Miðflokksmenn ósáttastir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert