Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogsbæjar segir að viðurkenna þurfi að mistök voru gerð í menntakerfinu.
Hún kveðst taka þá þróun alvarlega, sem niðurstöður PISA-könnunarinnar gefa til kynna, og boðar samtal við grunnskóla Kópavogsbæjar.
Þetta ritar Ásdís í facebook-færslu sem hún birti fyrr í dag.
Tilefnið er umfjöllun mbl.is um niðurstöður PISA og viðtal við Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóra Réttarholtsskóla, sem vakið hefur athygli.
Hann segir óásættanlegt að hundruðum milljarða sé varið í skólakerfið en samt sé niðurstaðan ekki betri en raun ber vitni, en árangur íslenskra nemenda er undir meðaltali OECD í stærðfræðilæsi, læsi á náttúruvísindi og lesskilningi.
„Eftir að samræmd próf voru afnumin hafa einkunnir barna sem útskrifast úr grunnskóla hækkað, þvert á það sem PISA-niðurstaða gefur til kynna,“ ritar Ásdís.
Hún veltir upp ýmsum spurningum um niðurstöðurnar og hverjar orsakirnar kunni að vera.
Meðal þess er hvort miðstýring sé of mikil í skólakerfinu, hvort gerðar séu nægar kröfur til barna í námi og svo hvort opinberi vinnumarkaðurinn sé of ósveigjanlegur hvað varðar nýsköpun og framþróun kennara í starfi.
„Sem bæjarstjóri tek ég alvarlega hver þróunin er og mun beita mér fyrir því að við bregðumst við með raunhæfum lausnum,“ ritar Ásdís.
„Á næstu misserum mun ég heimsækja alla grunnskóla í Kópavogi og hefja samtal við stjórnendur og kennara um hvað við getum gert til að gera grunnskóla í Kópavogi betur í stakk búna til að mæta þörfum nemenda okkar.“