Móta heildarstefnu í áfengis- og vímuvörnum

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi hefur slæm áhrif á heilsufar auk þess að hafa neikvæðar félagslegar afleiðingar í för með sér,” segir í skýrslu Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um áætlun um framkvæmd lýðheilsustefnu til fimm ára.  

Ítrekar þar heilbrigðisráðherra afstöðu sína að takmarka þurfi aðgengi að áfengissölu.  

Mikil umræða hefur verið í samfélaginu undanfarið um áfengissölu hér á landi og hafa skiptar skoðanir verið á milli þingmanna um hvaða stefnu skuli taka er kemur að aðgengi að áfengi. 

Íslenskt forvarnarstarf í fremstu röð

Í skýrslunni kemur fram að íslenskt forvarnarstarf sé í fremstu röð og hafi árangur í áfengis-, tóbaks- og vímuforvörnum vakið athygli út fyrir landssteinana.  

„Þessi árangur hefur náðst með því að virkja alla aðila samfélagsins, þar á meðal ríkið, sveitarfélög, skóla, hverfi, íþróttafélög, foreldra og ungmenni sjálf. Íslenska forvarnarmódelið hefur sýnt fram á mikilvægi þess að nýta nærumhverfi fólks til að ná fram jákvæðum breytingum.” 

Starfshópur skipaður ásamt þingmannanefnd

Segir heilbrigðisráðherra að mikilvægt sé að standa vörð um þann góða árangur sem náðst hafi hér á landi.  

„Þennan árangur má ekki gefa eftir því í honum felast ómæld verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Standa þarf vörð um íslenska forvarnarmódelið og gagnreynda áfengisstefnu sem m.a. felst í takmörkun á aðgengi með því að viðhalda einkasölufyrirkomulagi ríkisins.” 

Segir einnig í skýrslunni að í lýðheilsustefnu til ársins 2030 er lögð áhersla á skýrrar stefnumörkunar og aðgerða í málefnum áfengis- og vímuvarna. Hefur heilbrigðisráðherra nú þegar skipað starfshóp sem sitja í fulltrúar haghafa málaflokksins og er hópnum ætlað að móta heildarstefnu í áfengis- og vímuvörnum. Einnig hefur verið skipuð þingmannanefnd sem muni funda reglulega með starfshópnum.  

„Stefnan mun taka til forvarna, meðferðar og eftirfylgni, endurhæfingar og lagaumhverfis. Jafnframt mun hún taka mið af mismunandi þörfum ólíkra hópa, svo sem ungmenna, kvenna, aldraðra, hinsegin fólks og einstaklinga með alvarlegan langvinnan fíknivanda,” segir í skýrslunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert