Matvælastofnun mun fagna því þegar síðasti niðurskurðurinn vegna sauðfjárriðu verður framkvæmdur, að sögn forstjóra stofnunarinnar.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra, Hrönn Ólína Jörundsdóttir forstjóri Matvælastofnunar og Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands, undirrituðu í dag landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu.
Áætlunin gerir ráð fyrir breyttri nálgun við útrýmingu riðuveiki frá því sem verið hefur, horft er frá því að reyna að útrýma riðusmitefninu sjálfu en megináhersla lögð á að útrýma veikinni með ræktun fjárstofns sem ber verndandi arfgerðir gegn smitefninu ásamt áframhaldandi aðgerðum til að hefta mögnun og dreifingu þess.
„Hingað til hefur eina vörnin okkar verið að skera niður bústofninn. Þannig að nú erum við loksins komin með fleiri aðferðir og betri aðgerðir sem verða til þess fallnar að útrýma riðu,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, í samtali við mbl.is.
„Við fögnum þessu. Þetta er gott fyrir fé, gott fyrir bændur, gott yfir íslenskan landbúnað. Þannig að þetta er mjög jákvætt og við fögnum þessu líka því að það er Matvælastofnun sem sér um að skera niður bústofna. Þetta er mjög erfitt verkefni, þungt. Við munum fagna því þegar síðasti riðuniðurskurðurinn verði framkvæmdur,“ segir hún.
Hvað ert þú ánægðust með í þessari áætlun?
„Ég er rosalega ánægð að það sé svona breið samstaða. Þarna eru vísindamenn stofnanir ríkið og bændasamtökin og landbúnaðurinn að vinna saman að sameiginlegri áætlun og sameiginlegu verkefni. Að ná svona breiðri heild er gríðarlegt framfaraskref.“