Nakinn einstaklingur til vandræða

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörg horn að líta í …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörg horn að líta í gærkvöld og í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir aðilar voru vistaðir í fangaklefa í nótt þar sem þeir voru ofurölvi, báðir sofandi á gangstétt í miðborginni.

Til að tryggja öryggi mannanna voru þeir handteknir og fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem þeir fá að sofa úr sér í fangaklefa.

Þetta er meðal annars þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en lögreglan sinnti 84 málum frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í nótt.

Tveir aðilar voru handteknir fyrir brot á lögreglusamþykkt en þeir voru ölvaðir að valda óspektum. Annar þeirra gekk niður miðbæinn með flösku í hönd og barði í glugga, sparkaði í ruslatunnur og var með almenn leiðindi.

Þá var tilkynnt um nakinn einstakling að veitast að bifreiðum á stöð 4 sem sinnir Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ. Lögreglan fór á vettvang og tryggði ástand. Aðilinn var augljóslega undir áhrifum og var vistaður í fangaklefa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert