Inga Þóra Pálsdóttir
Vopnamálið sem kom upp í Rangárþingi ytra um helgina er til rannsóknar hjá lögreglu. Meðal þess sem er til rannsóknar er hvort skotum hafi verið hleypt af.
Þetta segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Lögreglan á Suðurlandi og sérsveit ríkislögreglustjóra voru kölluð til vegna ágreinings milli landeiganda í Rangárþingi á laugardag.
Um er að ræða ágreining um landareign milli ábúenda á Hala og Þykkvabæ.
Tveir voru handteknir í aðgerðum lögreglu og sérsveitar, en að skýrslutökum loknum voru þeir látnir lausir. Þá voru nokkur skotvopn haldlögð.
Finnbogi Jóhann Jónsson, ábúandi á Hala og einn mannanna sem var handtekinn í aðgerðum lögreglu, sagði í samtali við mbl.is í gær að engum skotum hefði verið hleypt af.
„Það var haglabyssa í bílnum og sonur minn tekur hana út og heldur bara á henni, hann ógnaði ekki einum né neinum,“ sagði Finnbogi við mbl.is og ítrekaði að engum skotum hefðii verið hleypt af.
Jón Gunnar segir það vera til rannsóknar hjá lögreglu hvort skotum hefði verið hleypt af.