Matvælaráðherra telur ekki tilefni til að rannsaka kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska.
Kaupin fara fram án aðkomu Samkeppniseftirlitsins í ljósi nýrra laga, en þingmaðurinn sem lagði breytingarnar fram á hlut í öðru félaginu.
Eins og mbl.is greindi frá í gær hafa hluthafar í Kjarnafæði Norðlenska hf. samþykkt tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á allt að 100% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska hf.
Kaupin eru undanskilin samkeppnislögum í ljósi nýrra laga sem samþykkt voru í mars.
Þingmaður Framsóknarflokksins lagði fram lagabreytingarnar en hann á sjálfur 0,8% hlut í Búsæld ehf. sem á rúmlega 43% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska hf.
Þingmaðurinn er Þórarinn Ingi Pétursson, sem er einnig formaður atvinnuveganefndar Alþingis.
„Það er sannarlega stór aðili að kaupa annan stóran. Og kannski hefði einhver minni getað sameinast fyrst,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra í samtali við mbl.is innt eftir viðbrögðum við sölunni, sem er sú fyrsta af þessu tagi sem fer fram frá því að breytingarnar voru lögfestar.
Kjarnafæði Norðlenska er eitt stærsta kjötvinnslufyrirtæki Íslands og Kaupfélag Skagfirðinga eitt stærsta kaupfélag landsins.
Bjarkey heldur áfram:
„En ég held samt sem áður að afurðastöðvarnar hafi verið í miklum vanda og reksturinn hefur ekki gengið vel.“
„Þetta átti að vera til þess að reyna að hjálpa til og auka hagræðingu, sem á að skila sér í betra afurðarverði til bænda og til neytenda,“ segir Bjarkey enn fremur.
„Nú er bara að fylgjast með því hvort það gangi eftir.“
Frumvarpið sem atvinnuveganefnd lagði fram var umdeilt bæði innan og utan þings. Samkeppniseftirlitið, Alþýðusambandið og Neytendasamtökin voru meðal þeirra sem gerðu athugasemdir við það og töldu þau lögin geta aukið hættu á einokun á markaði.
Stjórnarandstaðan krafðist frestunar á atkvæðagreiðslu en þeirri kröfu var ekki svarað. Svandís Svavarsdóttir gagnrýndi einnig breytingarnar í bréfi sem hún sendi sinn síðasta dag sem matvælaráðherra.
Telur þú tilefni til að rannsaka þessi kaup með tilliti til þessa?
„Í fyrsta lagi hefur það legið fyrir á heimasíðu Alþingis að Þórarinn Ingi á 0,8% hlut í þessum hlut sem á svo í Kjarnafæði Norðlenska,“ segir hún. „Ég tel ekki að það hafi haft nein ákvörðun hans eða ákvörðun nefndarinnar.“
„Varðandi réttmæti þessara aðgerðar eða ekki, þá sannarlega er það svo að það er komið fram annað áliti frá [Carl] Baudenbacher [fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins] sem segir að þetta sé eðlilegt og í samræmi við EES-löggjöfina.“
Bjarkey tekur fram að ESA hafi skrifað ráðuneytinu erindi, sem ráðuneytið hafi nú brugðist við en frekari svör enn ekki borist.
„Fyrst og fremst vil ég horfa á þetta þannig að þetta á að skila fólkinu í landinu og bændum betra verði en verið hefur,“ ítrekar hún.
Blaðamaður spyr aftur: Þannig að þú telur ekki tilefni til að rannsaka þetta frekar?
„Ráðuneytið gerir ekkert. Alþingi er búið að tala,“ svarar hún. „Alþingi setti lögin. Ráðuneytið svaraði athugasemdum ESA.“
Hvað kom fram í þeim athugasemdum?
„Þeir vildu fá skýringar á þessum lögum, sem þeir fengu. Það var mjög einfalt bréf í sjálfu sér. Svörin eru komin, athugasemdir Samkeppniseftirlitsins og allt það eru því fylgjandi. Svo bara sjáum við hverju fram vindur. Ráðuneytið fylgist grannt með.“